Afgreiðsla efh.- og viðskn. á lífeyrissjóðsfrv.

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 16:30:26 (6135)

1997-05-12 16:30:26# 121. lþ. 122.92 fundur 326#B afgreiðsla efh.- og viðskn. á lífeyrissjóðsfrv.# (aths. um störf þingsins), SvG
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[16:30]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það er alveg ljóst mál að lífeyrismálin eru einhver stærstu pólitísku deilumál samtímans á Íslandi, hvorki meira né minna. Þau móta grundvöllinn fyrir stjórnmálaumræðu næstu ára og áratuga. Og þess vegna er það stóralvarlegt að ríkisstjórnin skuli hafna óskum ASÍ og VSÍ um að frv., eins og það lá fyrir á föstudaginn, verði skoðað betur og afgreiðslu þess frestað. Í staðinn eru lagðar fram í nefndinni og knúðar fram í atkvæðagreiðslu milli 20 og 30 brtt. og síðan eru þær settar inn í annan frumvarpstexta og honum breytt. Og hvað er sagt um það frv.? Það er nýtt stjfrv.

Það er augljóst mál, herra forseti, að við þessar aðstæður hljóta menn að velta því fyrir sér hvort það er ekki óhjákvæmilegt að málið verði rætt nánar í þessari stofnun, undir dagskrárlið á eðlilegan hátt, eða að meiri hluti nefndarinnar dragi álit sitt til baka og kalli það inn í nefndina aftur. Því að ósvífnin við stéttarsamtökin, bæði ASÍ og VSÍ, í þessu máli er fyrir neðan allar hellur og það á ekki að láta það líðast að menn í skjóli tímaþrengsla síðustu daga þingsins hagi sér svo dónalega í garð þeirra sem eru að reyna að halda utan um verkalýðssamtökin og lífeyrissjóðina.

Ég tel að hér sé um að ræða atlögu að VSÍ og ASÍ. Það er slegið á útrétta sáttarhönd þessara aðila í stað þess að reyna að efna til samkomulags um hlutina. Og ég bæti því líka við, herra forseti, að það er athyglisvert að framkominni spurningu er ekki svarað þannig að það eigi að kalla stjórnarandstöðuna til samráðs um þessi mál í sumar. Það er einkar eftirtektarvert í svari hæstv. fjmrh. Ég vil sérstaklega segja, herra forseti: Þetta mál verður að skoða betur hér í þessari stofnun. Hæstv. fjmrh. og meiri hlutinn í efh.- og viðskn. hafa sýnt Alþýðusambandinu og Vinnuveitendsambandinu fullkominn dónaskap í þessum efnum.