Opinber fjölskyldustefna

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 21:38:03 (6175)

1997-05-12 21:38:03# 121. lþ. 122.25 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., Frsm. KÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[21:38]

Frsm. félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Það er mér sérstök ánægja að mæla fyrir þessu nefndaráliti sem hér liggur fyrir frá félmn. Það á sér þann aðdraganda að þetta mál hefur verið nokkuð lengi til umræðu, í undirbúningi og verið til umfjöllunar og hefur gífurlegur fjöldi fólks komið að máli. Það var haldið upp á ár fjölskyldunnar árið 1994 ef ég man rétt og út úr allri þeirri vinnu sem þá var efnt til komu bækur, ráðstefnur og fyrirlestrar og ein af niðurstöðunum varð sú að loksins væri kominn tími til að íslensk stjórnvöld samþykktu opinbera fjölskyldustefnu.

Það er ekki síður ánægjulegt að geta þess að hv. félmn. náði samstöðu um tillöguna þó að tveir nefndarmenn séu með fyrirvara og áskilji sér rétt til að flytja breytingartillögur. En eins og geta má nærri þá gæti slík tillaga verið afar víðfeðm og margt komið til og eflaust mætti ýmsu við bæta. Við höfum náð saman um texta sem er að finna á þskj. 1093, en vegna þess að þetta er þáltill., þá er textinn birtur þar allur í heild.

Nefndin fékk fjölda gesta á sinn fund til þess að ræða þessi mál og kallaði eftir ýmiss konar sjónarmiðum hvort sem þar var um að ræða skólafólk, uppeldisfræðinga eða karlanefndina, fulltrúa barnasamtaka, þeirra sem sinna börnum o.s.frv. Þarna komu margir að máli.

Í nefndinni var sérstaklega rætt um fjölskylduhugtakið og vill nefndin leggja áherslu á að hugtakið hefur öðlast víðtækari merkingu á síðustu áratugum. Skilgreining á fjölskylduhugtakinu var m.a. sett þannig fram af landsnefnd um ár fjölskyldunnar 1994 að fjölskyldan sé hópur einstaklinga sem á sameiginlegt heimili þar sem þeir deila tómstundum, hvíld, tilfinningum, efnahag, ábyrgð og verkefnum. Fjölskyldumeðlimir séu oftast fullorðnar manneskjur af báðum kynjum, eða einstaklingar, ásamt barni eða börnum (þeirra).

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali eins og ég gat um hér áðan. Þær eru eftirfarandi:

Lagt er til að í I. kafla tillögunnar verði ekki einungis talað um fjölskylduna sem hornstein íslensks samfélags heldur og sem uppsprettu lífsgilda.

Þetta orðalag var að finna í fyrri útgáfu tillögunnar sem lögð var fram á þingi í fyrra og okkur finnst afar mikilvægt að benda á þetta samhengi að fjölskyldan er ekki aðeins eining sem heldur sínum meðlimum saman og annast uppeldi og hina efnahagslegu hlið, heldur er hún einnig uppspretta margs konar lífsgilda.

Þá er lagt til að það verði ekki einungis falið ríkisstjórn á hverjum tíma að marka opinbera stefnu í málefnum fjölskyldunnar heldur og sveitarstjórnum og að slík stefna skuli ekki einungis miða að því að styrkja fjölskylduna og vernda án tillits til gerðar hennar heldur og án tillits til búsetu.

Við þetta síðasta er því að bæta, hæstv. forseti, að á undanförnum árum hafa orðið verulegar breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og m.a. hafa sveitarfélögin nú nýlega tekið grunnskólann yfir til sín. Nokkur sveitarfélög eru að taka málefni fatlaðra í sínar hendur og stefnir jafnvel í að þau málefni flytjist yfir til sveitarfélaganna þannig að þetta verksvið sem snýr að fjölskyldunni skarast allverulega milli ríkisstjórnar og sveitarfélaga. Nú má auðvitað spyrja sig að því hvort löggjafinn gæti skyldað sveitarfélögin til þess að marka sér fjölskyldustefnu, en slíkt hlýtur að tengjast félagsmálastefnu einstakra sveitarfélaga eða allra sveitarfélaga í landinu og í rauninni að teljist sjálfsagt að þau geri það.

Þá viljum við leggja sérstaka áherslu á það að við einblínum ekki á fjölskylduna í þéttbýlinu þar sem vandamálin vilja oft vera mest áberandi heldur verði hugað að því hvaða áhrif búseta hefur á samsetningu fjölskyldunnar og stöðu að sem flestu leyti.

Þá er og lagt til að ein af þeim meginforsendum sem fjölskyldustefna taki mið af verði sú að fjölskyldulífið veiti öllum einstaklingum, einkum þó börnum, öryggi og tækifæri til að þroska eiginleika sína til hins ýtrasta. Þarna erum við enn að leggja áherslu á það hve fjölskyldur geta verið ólíkar af margs konar toga eða geta verið samsettar á ýmsa vegu.

Nefndin leggur til að eitt af almennum markmiðum stjórnvalda við framkvæmd fjölskyldustefnu, sbr. ákvæði II. kafla tillögunnar, skuli vera það að varðveita gildi hjónabandsins sem eins traustasta hornsteins fjölskyldunnar og sérstaklega skuli gætt að því við setningu skattareglna að þeir sem velja það að ganga í hjónaband standi ekki hlutfallslega verr að vígi en aðrir í skattalegu tilliti.

Það hefur verið bent á það að undanförnu, hæstv. forseti, að þeir sem eru í hjónabandi virðast að mörgu leyti standa verr að vígi hvað varðar skatta, jaðarskatta og ýmsar bætur og að það gæti jafnvel tilhneigingar til aukinna hjónaskilnaða vegna þessa. Við teljum að þetta þurfi að skoða alveg sérstaklega. Að mínum dómi á að vera munur á milli þess að vera í hjónabandi, sem er samningur tveggja aðila, og þess að vera í óvígðri sambúð. Þetta eru form sem fólk er að velja á milli og þarna á að vera ákveðinn munur á réttindum og skyldum.

[21:45]

Þá vill nefndin leggja áherslu á að upplýsingar og fræðsluefni um samanburð á réttarstöðu fólks í hjúskap og óvígðri sambúð þurfi að liggja fyrir og bendir á nauðsyn þess að slíkt efni verði kynnt almenningi. Ég vil skjóta því að, hæstv. forseti, að hæstv. dómsmrh. upplýsti fyrir nokkrum dögum að hann hygðist gefa út slíkan bækling og það ber auðvitað að fagna því af því að mjög greinilega hefur komið í ljós að fjölmörgum er ekki ljóst hver munur er á því að vera í hjónabandi og óvígðri sambúð.

Einnig er lagt til að það verði eitt af almennum markmiðum stjórnvalda að fjölskyldur sjúkra og annarra hópa eftir því sem við á skuli, eins og fjölskyldur fatlaðra, njóta nauðsynlegs stuðnings í ljósi aðstæðna hverju sinni. Í upphaflegri tillögu var greint á milli fjölskyldna fatlaðra og nýbúar voru tíundaðir sérstaklega. Við viljum að það komi hér inn í myndina að fjölskyldur m.a. þar sem um sjúk börn er að ræða búa við sérstakar aðstæður og þá þarf auðvitað að huga að þeim fjölskyldum þar sem sjúklingar eru á hvaða aldri sem þeir kunna að vera.

Enn fremur verði að efla skilning á eðli fjölskyldunnar, hlutverki, myndun og upplausn. Þetta verði m.a. gert með fræðslu um fjölskylduáætlanir, en með því er átt við einstaklingsbundnar fjölskylduáætlanir um t.d. takmörkun barneigna, fjölskyldumyndun og ábyrgð. Við þetta síðasta er því að bæta að á undanförnum árum og áratugum hafa orðið gríðarlegar breytingar á stöðu fjölskyldunnar. Hjónaskilnuðum hefur fjölgað. Þeim heimilum þar sem aðeins er einn fullorðinn einstaklingur hefur fjölgað alveg gífurlega hvort sem þar eru börn á heimili eða ekki og það er mjög mikilvægt bæði að fólk átti sig á þessum breytingum og reyni að skilja orsakirnar og vinna gegn þeim ef vilji er til þess og það sé þá leitað leiða til þess. Einnig er mjög nauðsynlegt að fræða ekki síst foreldra um hvert hlutverk fjölskyldunnar er og reyndar er komið betur að því í 2. lið.

Með hliðsjón af framangreindri breytingu, varðandi skyldu sveitarstjórna til að marka opinbera fjölskyldustefnu, er lagt til að sveitarfélögin eigi fulltrúa í fjölskylduráði, sbr. ákvæði III. kafla tillögunnar. Varðandi skipan fjölskylduráðs er auk þess gert ráð fyrir því að einn af fulltrúum ráðsins verði tilnefndur af skólum á háskólastigi en tilnefningin ekki takmörkuð við fulltrúa frá Háskóla Íslands. Þá verði það gert að skilyrði að fulltrúar sem sæti eiga í fjölskylduráði hafi víðtæka þekkingu eða reynslu af málefnum fjölskyldunnar. Þetta leggjum við til, hæstv. forseti, til þess að tryggja að að þessu máli komi fólk með faglega þekkingu og reynslu á þessu sviði til þess að starf fjölskylduráðsins megi verða sem markvissast.

Nefndin leggur einnig til að eitt af hlutverkum fjölskylduráðs verði, auk þess að eiga frumkvæði að opinberri umræðu um málefni fjölskyldunnar, að veita leiðbeinandi upplýsingar til fjölskyldna um viðbrögð við nýjum og breyttum aðstæðum. Þetta síðasta sem ég nefndi kom til vegna umræðna um það hve foreldrar geta oft verið villuráfandi í því hvernig beri að taka á vandamálum, hvað séu hinar réttu viðmiðanir og auðvitað kallar allt slíkt á umræður, rannsóknir og þekkingu á daglegu lífi fjölskyldna á Íslandi, en það er trú okkar að hægt sé að koma fjölskyldum til hjálpar og það þekkja allir sem hafa komið nálægt barnauppeldi að oft getur verið erfitt að standast utanaðkomandi áhrif og gildi og börnin beita hvert öðru fyrir sig vegna þess hvað leyfist og hvað leyfist ekki. Það er auðvitað ekki tillaga okkar að farið verði að setja einhverjar reglur eða formúlur um hvernig barnauppeldi skuli háttað, heldur fyrst og fremst að vekja umræður og aðstoð og að slík umræða geti verið leiðbeinandi.

Þá er lagt til að staða og afkoma barnafjölskyldna í nútímasamfélagi verði könnuð sérstaklega og að fastar verði kveðið að orði varðandi rétt feðra til fæðingarorlofs. Lagt er til að í stað þess að ganga út frá því að ríkisstjórnin skapi skilyrði sem tryggi feðrum aukinn rétt til fæðingarorlofs skuli feðrum tryggður aukinn réttur til fæðingarorlofs og þeir sérstaklega hvattir til að nýta hann. Loks er lagt til að í stað þess að ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að sköpuð verði skilyrði til þess að Ísland geti fullgilt samþykkt nr. 156, um starfsfólk með fjölskylduábyrgð, sem gerð var á 67. þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar í Genf 23. júní 1981, skuli slík skilyrði sköpuð. Með þessu er nefndin að kveða fastar að orði og festa bæði fæðingarorlof feðra og vinnutilskipunina betur í sessi og í rauninni er ætlast til að þeim atriðum verði sérstaklega fylgt eftir.

Eins og ég nefndi í upphafi er þetta býsna merkilegt mál sem hér er á ferðinni. Eflaust hefði mátt tíunda ýmislegt fleira og skilgreina bæði hugtök og markmið betur og öðruvísi, en þetta er niðurstaða nefndarinnar. Það má segja að nú reyni fyrst og fremst á framkvæmdina. Nú reynir á vilja stjórnvalda að fylgja þessari stefnu eftir og sú reynsla mun væntanlega verða til þess að næst þegar tekist verður á við mótun fjölskyldustefnu, þá munum við geta lært af reynslunni og menn munu þá geta velt því fyrir sér hvort t.d. væri rétt að afmarka málefni fjölskyldunnar betur í stjórnkerfinu eins og hefur verið gert í ýmsum öðrum löndum, t.d. í Noregi eða hvort menn teldu að taka þyrfti öðruvísi á málum.