Opinber fjölskyldustefna

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 22:31:03 (6178)

1997-05-12 22:31:03# 121. lþ. 122.25 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., PHB
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[22:31]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Það mál sem við ræðum er ákaflega mikilvægt þó að sumir kunni að halda að hér sé eingöngu um orðagjálfur að ræða. Flest erum við hluti af fjölskyldu og vonandi öll en engu að síður er mjög markverð þróun í gangi frá fjölskyldu þar sem eru fleiri en einn og í það að vera svokallaðir ,,singles``. Hér á landi hefur þróunin verið slík að fyrir 1960 töldust 13% af fólki einstaklingar en nú eru það 22% þannig að mjög mikil þróun er í gangi frá hinni hefðbundnu fjölskyldu til einbýlisfjölskyldu og það er spurning hvaða áhrif þetta hefur.

Við tökum eftir áhrifum í dag sem felast í því að sum börn kynnast aldrei karlmönnum, aldrei. Þau alast upp með móður sinni. Síðan fara þau í leikskóla. Þar eru eintómar konur sem sinna þeim. Síðan fara þau í barnaskóla og þar kenna þeim eintómar konur. Það er ekki fyrr en í framhaldsskóla að þau kynnast fyrirbærinu karlmanni. Ég held að þetta sé ákaflega neikvætt og það eigi að hamla gegn slíkri þróun.

Herra forseti. Eins og ég gat um áðan, kann að vera að einhver kunni að halda að það sé orðagjálfur sem hér stendur:

,,Fjölskyldan er hornsteinn íslensks samfélags og uppspretta lífsgilda.``

Þetta virðist vera ákaflega háfleygt og segja lítið, en ef farið er að skoða þetta nákvæmlega, þá hefur þetta heilmikið gildi. Ég lagði mikla áherslu á það í hv. félmn. að orðin ,,uppspretta lífsgilda`` yrðu tekin inn í þáltill. vegna þess að það er í fjölskyldunni sem við lærum að ekki megi stela, ekki megi drepa og ekki megi beita ofbeldi og það eigi að bera virðingu fyrir fólki og umburðarlyndi skuli haft í heiðri.

Það er einmitt í fjölskyldunni sem siðferðiskerfi þjóðarinnar flyst áfram frá fullorðnum til barna og þannig á það líka að vera þannig að fjölskyldustefnan er ekki bara út í bláinn. Þetta er ekki bara út í bláinn sem stendur þarna að fjölskylda skuli vera uppspretta lífgilda og sérstaklega ekki nú á tímum þegar þróunin er svo hröð að menn hafa ekki lengur viðmiðanir frá því sem þeir lærðu sjálfir sem börn.

Eins og hér hefur komið fram áður hjá öðrum hv. ræðumönnum, veltur þetta mikið á framkvæmdinni. Hér er verið að setja ramma utan um stefnu sem á eftir að fara í framkvæmd og það veltur mikið á framkvæmdinni hvernig til tekst. Þá veltir maður fyrir sér: Til hvers eiginlega er fjölskyldustefna? Við höfum komist ágætlega af án hennar hingað til, svo virðist a.m.k. vera. Af hverju þurfum við fjölskyldustefnu? Það er til þess að samhæfa síflóknari laga- og reglugerðafrumskóg þannig að fjölskyldan sé ekki dæmd út í horn.

Það er nefnilega svo að margt í núgildandi lögum er fjölskyldufjandsamlegt. Við ræddum fyrr í dag um skattalög sem hér hafa verið að þróast á undangengnum áratugum og eru komin í þá stöðu að það margborgar sig fyrir fólk að búa sem einstætt foreldri heldur en sem hjón t.d. Ég nefndi sem dæmi að barnabætur til hjóna með tvö börn eru lægri en barnabætur til einstæðs foreldris með tvö börn með sömu tekjur þannig að í öðru tilfellinu þurfa fjórir einstaklingar að lifa á þessum tekjum --- 150 þús. kr. nefndi ég sem dæmi --- og í hinu tilfellinu þrír. Og þar sem þrír lifa af tekjunum, þessum sömu tekjum, þá fá þeir hærri barnabætur frá ríkinu. Þetta er náttúrlega mjög skrýtið og mjög fjölskyldufjandsamlegt. Og við þessu mundi fjölskyldustefna stemma stigu og gæta þess að slíkt komi ekki upp.

Herra forseti. Í þessari opinberu fjölskyldustefnu er ákaflega áberandi það sem ég vil kalla jafnrétti karla og kvenna. Það virðist vera að höfundarnir hafi verið mjög uppteknir af því að læða inn í stefnu um fjölskyldumál jafnrétti karla og kvenna þrátt fyrir að til séu í landinu lög um jafnréttismál.

Hér stendur: ,,að velferð fjölskyldunnar byggist á jafnrétti karla og kvenna ...``. Ég spyr: Af hverju ekki jafnrétti allra? Ég hef svo sem margoft bent því fólki sem er á móti misrétti karla og kvenna --- það eru náttúrlega flestir og þar á meðal ég --- að það er í rauninni að lesa á hitamælinn. Einhver sjúklingur er lasinn og hann er með hita og þá demba þeir honum í kalda sturtu til þess að lækka hitann. En þeir átta sig ekki á því að hitinn stafar af einhverju allt öðru sem er misrétti fólks. Og vegna þess að þetta fólk sér aldrei raunverulega sjúkdóminn sem er misrétti fólks en einblínir alltaf á afleiðingarnar sem er misrétti karla og kvenna, þá tekst ekki að lækna sjúkdóminn. Þetta hef ég grun um. Ég hefði viljað sleppa þarna ,,karla og kvenna``. Mér finnst ekki síður að það eigi að vera jafnrétti á milli fólksins í fjölskyldunni þannig að t.d. börnin njóti jafnréttis hvert gagnvart öðru, t.d. aðrir fullorðnir í fjölskyldunni, eins og t.d. aldraðir foreldrar eða þar sem búa saman tvær mæðgur, að þar eigi að vera jafnrétti líka, að gamla konan geti ekki kúgað ungu konuna eða öfugt sem er líka þekkt. En það er heimilt í dag samkvæmt jafnréttislögunum.

Svo hefði ég talið betra að þarna kæmi inn gagnkvæm virðing, af því að ég tel að það sé mjög mikilvægt að fjölskyldumeðlimir beri allir virðingu hver fyrir öðrum og að fullorðnir beri virðingu fyrir börnunum og að börnin, sérstaklega unglingarnir, beri virðingu fyrir fullorðna fólkinu en þar vill oft vera mikill misbrestur á og ekkert jafnrétti í gangi.

Í lokamálsgrein I. kafla er talað um: ,,að fjölskyldulífið veiti einstaklingum, einkum börnum, öryggi ...`` Þetta er breyting sem náðist fram í félmn. vegna þess að fullorðnir sækja að sjálfsögðu ekki síður öryggi til fjölskyldunnar en börnin. Ég geri ráð fyrir að hv. þm. hafi mjög oft leitað til fjölskyldu sinnar þegar þeir eiga í basli niðri í þingi og rætt það við maka sinn og jafnvel börn eða foreldra um þau vandamál sem þeir eiga við að glíma og þar fá þeir öryggi og þar fá þeir aðallega traust. Þar geta þeir treyst 100% því sem sagt er. Það verður ekki notað gegn þeim o.s.frv. þannig að fjölskyldan er líka verulega mikilvæg fyrir hinn fullorðna.

1. liðurinn í II. kafla um almenn markmið stjórnvalda við framkvæmd fjölskyldustefnu á að ,,leggja áherslu á jafna ábyrgð beggja foreldra ...`` Þarna mundi ég vilja segja: ,,jafna ábyrgð allra fjölskyldumeðlima``, þannig að sumir fjölskyldumeðlimir eins og unglingar geti ekki skorast undan ábyrgð á fjölskyldunni. Reyndar er það þannig að þeir skorast margir hverjir ekki undan henni en sumir gera það þannig að ég vil ekki einblína eingöngu á þetta hefðbundna fjölskyldumynstur.

Síðan set ég spurningarmerki við það að kynna réttindi og skyldur sambúðarfólks en ekki hjóna. Mér finnst ekki síður mikilvægt að kynna réttindi og skyldur hjóna. En það má auðvitað segja að hjón séu jafnframt sambúðarfólk þannig að kannski geta menn lesið það út úr þessari grein.

Ég lagði mikla áherslu á að í þessum tillögum kæmi fram að veittar séu, hvað á ég að segja, ráðleggingar til fjölskyldna sem þurfa að glíma við vandamál sem áður voru óþekkt, t.d.: Hvað eiga börn að horfa mikið á sjónvarp eða vídeó? Flest okkar höfðu ekki reynslu af þessu sem börn. Þá var ekkert vídeó. Hvað mega börn vera mikið að leika sér í tölvu og hvaða leiki mega þau leika þar? Um þetta höfum við engar fyrirmyndir og við þurfum hvert og eitt að finna upp einhverjar reglur um það hvort sjö ára börn mega sitja í klukkutíma á dag við tölvuna eða þrjá tíma eða fimm tíma. Þarna vantar leiðbeiningu einhvers staðar frá, einhverjir þurfa að setjast niður og hugleiða hvernig eðlilegt er að fjölskyldan bregðist við svona nýjungum og það er mjög mikilvægt því að áður fyrr höfðu menn alltaf fyrirmyndir frá sinni eigin barnæsku hvernig þeir ætluðu að ala sín börn upp. En það á ekki lengur við.

Ég hef haft mikinn áhuga á rétti feðra til fæðingarorlofs vegna þess að ég tel að jafnrétti kynjanna, og þá vil ég tala um jafnrétti kynjanna, sé skekkt með núverandi reglum um fæðingarorlof þar sem eingöngu konan fær fæðingarorlofið og það kemur niður á launum hennar en ég ætla ekki að fara nánar út í þá sálma af þessu tilefni.

Varðandi fjölskyldusjóðinn sem er á brtt. á þskj. 1135, þá vil ég segja það að hann fengi að sjálfsögðu fjárveitingar á fjárlögum og að sjálfsögðu getur fjölskylduráðið sótt um fjárveitingar til sérstakra verkefna á fjárlögum þannig að ég sé engan mun á þessu nema menn ætli að fara að fá einhverjar sjálfvirkar greiðslur af fjárlögum sem fara þá í minna nýt verkefni svo að ég tali nú ekki um einskis nýt verkefni. Það er miklu skynsamlegra að menn sæki um fjárveitingar til ákveðinna verkefna en að þeir séu að fá sjálfvirkar greiðslur fyrir utan það að ég tel og er ekki einn um það að þegar sé búið að lesta velferðarkerfið alveg nóg. Við horfum upp á vaxandi biðlista út um allt og svona útgjöld munu að sjálfsögðu lengja á biðlista hjá einhverjum öðrum.

Þessi þáltill., herra forseti, er mjög þörf og góð að mínu mati og ég legg áherslu á að hún verði afgreidd hið fyrsta og síðan vonast ég til og býst við því að núverandi ríkisstjórn sem ég styð muni vera mjög vel fær um að fylgja þál. vel eftir. Við þurfum ekkert að bíða eftir því að einhverjir aðrir flokkar taki við. (Gripið fram í: Spyrjum að leikslokum.)