Opinber fjölskyldustefna

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 22:42:33 (6179)

1997-05-12 22:42:33# 121. lþ. 122.25 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., MF
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[22:42]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir sem hér hafa talað fagna því að þetta mál er nú loksins komið á lokastig í vinnslu. Þó að þarna hafi verið gerðar ýmsar þær breytingar sem mér finnst vera til bóta og mér sýnist að ýmsar tillögur sem komu fram í málflutningi stjórnarandstöðunnar við fyrri umr. hafi verið teknar til greina og sú tillaga sem hér liggur frammi er öllu betri en sú sem lagt var af stað með, þ.e. á þessu þingi, þá verð ég að segja samt sem áður að það verkar mjög einkennilega á mig að vera að taka til síðari umræðu tillögu um mótun opinberrar fjölskyldustefnu og aðgerðir til að styrkja stöðu fjölskyldunnar á sama tíma og nefndir þingsins eru að neita afgreiðslu á ýmsum þeim málum sem í raun gætu styrkt þessa tillögu verulega og stjórnarmeirihlutinn gæti sýnt viljann í verki ef hann bæri gæfu til þess. Hér er aðeins um að ræða þingsályktun sem kveður á um meginforsendur fjölskyldustefnunnar og almenn markmið stjórnvalda við framkvæmd fjölskyldustefnu. Engu að síður er hér verið að telja upp ýmis þau atriði sem betur mega fara og þarf að framkvæma til þess að tryggja megi stöðu fjölskyldunnar í breyttu samfélagi.

Við stöndum frammi fyrir því að ýmislegt kemur til með að veikja stöðu fjölskyldumeðlima. Sérstaklega er t.d. getið um stöðu aldraðra, öryrkja og sjúkra í þessari tillögu og þess getið að styrkja þurfi stöðu þeirra og styrkja stöðu fjölskyldunnar til þess að sinna fötluðum, öldruðum, sjúkum. Á sama tíma er hér verið að hafna afgreiðslu á frumvörpum sem fela í sér bætta stöðu fjölskyldunnar í þessum efnum. Ég vil byrja á að nefna t.d. frv. um umönnunarbætur, sem eru til greiðslu fjölskyldumeðlims fyrir að hugsa um sjúkan, aldraðan eða öryrkja í heimahúsi, frv. sem hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir flytur og frv. sem ég hef reyndar flutt sama efnis, sem ekki er vilji til að afgreiða í heilbr.- og trn. þar sem aðeins um það að ræða að útvíkka þá heimild sem er til staðar í dag í lögum um almannatryggingar, þar sem heimild er til staðar að greiða megi maka umönnunarbætur fyrir að hugsa um maka og heimili, aldraðan, öryrkja eða veikan. En það sem við erum að leggja til er að þetta verði útvíkkað þannig aðrir aðstandendur eða hver sá sem hugsar um fjölskyldumeðlim í heimahúsi eigi rétt á þessum bótagreiðslum. Hér er ekki um háar fjárhæðir að ræða og örugglega til sparnaðar í heildina tekið fyrir ríkið þar sem koma má í veg fyrir að einstaklingur sem hugsanlega gæti dvalið í heimahúsi fari á stofnun og taki þar upp dýrt hjúkrunarpláss. Í síðustu viku ræddum við í heilbr.- og trn. mál, sem búið er að liggja fyrir frá upphafi þings eins og þessi, um þátttöku almannatryggingakerfisins í greiðslu fyrir sálfræðiþjónustu eða ráðgjöf félagsráðgjafa veitta börnum upp að 18 ára aldri, mál sem allar umsagnir þeirra sem hafa með fjölskyldumál eða fjölskylduráðgjöf að gera mæltu með að yrði samþykkt. Nei, það var ekki heldur hægt. Meiri hluti heilbr.- og trn. felldi ósköp einfaldlega að málið yrði afgreitt úr nefndinni og það mætti koma til afgreiðslu hér í þinginu.

Í lífeyrissjóðsmálinu sem mikið hefur verið hér til umræðu er verið að tryggja framfærslu aldraðra og öryrkja. Þar er um sterk samtryggingarákvæði að ræða, ákvæði sem gera það að verkum að allir eiga þennan rétt. Allir eiga rétt á greiðslu lífeyris, hvort sem um er að ræða manneskju sem slasast eða veikist á miðjum aldri. Þetta samtryggingarkerfi á að veikja. Það virðist vera vilji meiri hluta Alþingis að veikja þetta kerfi sem þó er viðurkennt að sé eitt hið besta til þess að tryggja framfærslu aldraðra og öryrkja.

Breytingar á skattalöggjöfinni, breytingar á barnabótakerfinu, til hvers verða þær? Eru þær til þess að styrkja fjölskylduna og tilverugrundvöll hennar? Ekki aldeilis. Því er haldið fram að þetta skattkerfi og sérstaklega þær samþykktir sem snúa að barnabótum séu hreinlega fjandsamlegar fjölskyldunni og barnafólki og meira að segja hefur komið fram hjá ýmsum að það hvetji fremur til þess að hjón skilji vegna þess að stór hluti barnafólks missir barnabæturnar alfarið samkvæmt þessu skattafrv. ríkisstjórnarinnar.

Það hafa komið fram ályktarnir m.a. frá ungum framsóknarmönnum sem enn halda í eitthvað af hugsjónunum sem framsóknarmennirnir höfðu fyrir síðustu kosningar. Þeir hafa ályktað gegn þessu frv. en allt kemur fyrir ekki. Það skal í gegn. Og þó að kjör barnafólks versni verulega við samþykkt þessa frv. þá skal það í gegn.

Það sama má í raun og veru segja hvað snýr að námsfólki. Hér hefur verið bent á það aftur og aftur að aðgerðir og þær breytingar sem hafa verið gerðar á námslánakerfinu skerði aðstöðu barnafólks til náms og það hafi orðið 33% fækkun í þeim hópi, þ.e. að fækkað hafi í hópi fólks sem á börn og stundar nám um 33% núna á 3--4 árum. Þannig má telja upp áfram og áfram og fara í alla þá liði þar sem eru almenn markmið stjórnvalda og meginforsendur fjölskyldustefnu sem hér er verið að setja fram og á að fara að afgreiða. Benda má á mál sem ýmist liggja óafgreidd í nefndum eða sem hreinlega er búið að tilkynna að verði ekki afgreidd. Og hvernig í ósköpunum á maður þá að leggja trúnað á góðan vilja þeirra sem hér hafa lagt þessa þáltill. fram, þ.e. ríkisstjórnarinnar? Manni flýgur í hug að þarna sé um það að ræða að vegna þess að þetta starf fór fram á ári fjölskyldunnar, vegna þess að þáltill. hafði verið unnin, vegna þess að viljinn var til staðar, þá sé mönnum ekki stætt á öðru en að klára málið og afgreiða það hér í þinginu. Og það er mjög slæmt. Það er mjög slæmt að hafa í raun og veru ekki meiri trú á þessari ríkisstjórn og hennar stuðningsmönnum en svo að hér sé um sýndarmennsku að ræða því að það er alveg ljóst að stjórnmál á næstu árum munu snúast meira og minna um málefni fjölskyldunnar, umræðan og pólitíkin mun öll snúast um mál tengd fjölskyldunni. Og þær ýta undir þessar efasemdir allar þær reglugerðir sem hafa verið settar í tíð þessarar ríkisstjórnar sem hafa skert kjör aldraðra, sjúklinga og öryrkja æ ofan í æ. Þannig er þetta og því miður er hæstv. félmrh. ekki hér viðstaddur sem auðvitað hefði verið mjög nauðsynlegt því vera kynni að hægt hefði verið að knýja fram einhverja yfirlýsingu hans um góðan vilja og jafnvel hvernig á að bregðast við einstaka ákvæði sem ekki hefur verið upplýst áður í umræðunni. Eins og menn vita hefur hæstv. ráðherra ekki komið með slíkar yfirlýsingar í umræðu heldur í atkvæðagreiðslu. En má vera að það sé ástæða þess að hér er vilji meiri hlutans að ljúka þingstörfum á laugardaginn, þess vegna sé hæstv. ráðherra í fríi þessa vikuna.

Mig langar líka til þess að nefna eitt vegna þess að sérstaklega er tekið fram í þessari þáltill. og var í þeirri fyrri að réttur feðra verði tryggður, að feðrum verði tryggður aukinn réttur til fæðingarorlofs og þeir sérstaklega hvattir til að nýta hann. Nú lá fyrir heilbr.- og trn. þáltill. þess efnis að feðrum yrði tryggður aukinn réttur til fæðingarorlofs og mig minnir að þar sé talað um hálfan mánuð. Það var tillaga meiri hlutans að þeirri tillögu yrði vísað inn í þá endurskoðun sem búið er að lýsa yfir af hálfu hæstv. heilbr.- og trmrh. að standi yfir á fæðingarorlofslögunum, heildarendurskoðun, farið fram á að þessari tillögu yrði bara vísað frá nefndinni til ríkisstjórnarinnar í þessa endurskoðun. Nei, það var ekki hægt. Þar dugðu hvorki yfirlýsingar hæstv. heilbrrh. né yfirlýsingar hæstv. forsrh. og mig minnir reyndar að þetta sé í sáttmála þessara stjórnarflokka. En það mátti ekki afgreiða tillöguna, kannski vegna þess að hún var frá stjórnarandstæðingum, en það ber náttúrlega vott um lítinn þroska og enn minni vilja að geta ekki afgreitt tillögu með þessum hætti. Það sama má í raun segja um aðrar þær tillögur sem við höfum verið með í heilbr.- og trn. sem flestallar tengjast afkomu fjölskyldunnar beint.

Verst af öllu er þó að meiri hluti þessarar nefndar skyldi hafna því að veita aukna ráðgjöf, fjölskylduráðgjöf og ráðgjöf til barna sem þurfa á aðstoð sálfræðings eða félagsráðgjafa að halda. Þrátt fyrir þær umsagnir sem bárust er mjög erfitt að kyngja því að ekki skyldi vera vilji til staðar hjá meiri hlutanum til þess að samþykkja það frv. til laga.

Virðulegi forseti. Ég tel að við í stjórnarandstöðunni höfum fulla ástæðu til þess að ætla að hér sé því miður um að ræða orð sem á að samþykkja og fara með í gegnum þingið fyrst og fremst til þess að segja að tillagan hafi orðið til, hún hafi verið samþykkt, en ekki endilega til þess að framfylgja því sem í henni stendur. Og mér þykir gott að hv. þm. Pétur Blöndal skuli enn hafa trú á því að þessi ágæta ríkisstjórn skuli framfylgja þeirri stefnu sem hér er, þrátt fyrir þau orð sem hann hafði um barnabótakerfið og afgreiðslu ríkisstjórnarinnar og meiri hlutans á því máli og ýmsar aðrar þær ábendingar sem hv. þm. kom með. Margar og nær allar þær athugasemdir sem hann kom með í sinni ræðu voru mjög góðar og betur væri ef sú stefna réði ferðinni hjá hæstv. ríkisstjórn. En því miður hygg ég að hv. þm. Pétur Blöndal sé í miklum minni hluta meðal stjórnarliða í viðhorfum sínum til þessara mála og ég hef ekki sömu trú og hann á ágæti þessarar ríkisstjórnar. Það er fyrst og fremst vegna þess að verk hennar fram að þessu hafa öll verið á sömu bókina. Þau eru fjölskyldufjandsamleg.