1997-05-13 00:29:35# 121. lþ. 122.19 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[24:29]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að ég hafi misskilið hv. þm. þar sem hann taldi eðlilegt að starfsmannamálin þróuðust í þeirri samkeppni sem yrði á næstu árum, vonandi ekki milli starfsmanna heldur hefur hann átt við samkeppni milli bankanna. Og að það yrðu manneskjulegri uppsagnir sem samkeppnin felur í sér, þá hefur reynsla ekki sýnt að samkeppni sé betur til þess fallin að fara mjúkum höndum um starfsmenn, enda höfum við, eins og hv. þm. veit, lagt áherslu á það að allar breytingar eigi að vera í fullu samráði og samstarfi við starfsmenn. Hins vegar veit hv. þm. það líka að breytt hlutverk bankanna þarf ekkert endilega að þýða verulega fækkun starfsmanna. Breytt starfsumhverfi bankanna kallar á verulegar breytingar í bankastarfseminni. Það þarf ekkert endilega að þýða fækkun starfa. Þetta veit hv. þm.

Hann veit það líka jafn vel og ég að það er nauðsynlegt í mjög mörgum kjördæmum að fækka útibúunum. Það þarf að gera það og, eins og hv. þm. segir, starfa allt of margir við það að flytja þetta fjármagn og þá aðallega frá landsbyggðinni til Reykjavíkur. Það er staðan og ef öflugur banki og nýsköpunarlánasjóður yrði til á að sjálfsögðu að binda ákveðinn hluta við uppbyggingu starfa í þeim kjördæmum þar sem niðurskurður yrði í þessari starfsemi. Þetta hlýtur að vinnast bæði í samráði við starfsmennina en ekki endilega að þýða samkeppni milli bankastofnana, að hagræðingin sé best þannig.