1997-05-13 00:35:14# 121. lþ. 122.19 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[24:35]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Mér fannst þessi ræða hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur, formanns Alþb., vera nokkuð merkileg. Hún reyndar snerti það mál sem er hér síðar á dagskránni sem er Fjárfestingarbanki atvinnulífsins. Ég skildi ekki betur áðan í þeirri ræðu sem formaður Alþb. flutti en Alþb. hefði breytt um afstöðu fyrir Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og það finnst mér vera nokkuð mikil tíðindi. Ef það er rétt, þá er það gert af mjög miklu pólitísku raunsæi því staðreyndin er sú að í 15 ár hafa menn ætlað að sameina fjárfestingarsjóði atvinnulífsins og það hefur aldrei tekist. Um það hefur ekki myndast pólitísk samstaða milli flokka á Alþingi við atvinnulífið í landinu fyrr en núna að það tekst og nú er það frv. komið til 3. umr. Þegar ég skoða atkvæðagreiðsluna eftir 2. umr. sé ég að allir þingmenn Alþb., sem voru viðstaddir þá atkvæðagreiðslu, greiddu atkvæði gegn 1. gr. þess frv. en nú heyrði ég ekki betur en hv. þm. Margrét Frímannsdóttir, formaður Alþb., hefði lýst yfir stuðningi við frv. um Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Ég fagna því og býst við að það sé komið til af raunsæi.

Ég hef áður sagt bæði við 1. og 2. umr. að það mætti alveg hugsa sér að þessi mál hefðu farið í annan farveg heldur en nákvæmlega þennan sem hin pólitíska samstaða myndaðist um. Hins vegar kann svo að fara, og þá kem ég að 2. tölul. brtt. hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur og Svavars Gestssonar, að þegar formbreytingin hefur átt sér stað fari þessi mál í þann farveg eins og hér er lýst. Ég treysti mér ekki til að segja til um það hvort það gerist innan einhvers tíma að Búnaðarbanki Íslands hf., þegar hann verður til, og Landsbanki Íslands hf., þegar hann verður til, sameinist eða hvort Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf., sem verður til, kaupi hlut í bönkunum eða bankarnir kaupi hlut í honum. Ég held að þetta séu hlutir sem við eigum ekki á þessari stundu að vera að hafa bein afskipti af heldur sjá til hvernig markaðurinn sjálfur leysir best úr þessum hlutum á sem hagkvæmastan hátt.

Varðandi 1. tölul. brtt. um einn bankastjóra hef ég svarað því fyrr í umræðunni. Ég tel að það sé stjórnar hinna nýju hlutafélaga að taka ákvörðun um slíkt.

Hv. þm. spurði um nýsamþykkt skipurit fyrir Landsbanka Íslands og hvaða breytingar það hefði í för með sér. Nú hef ég kynnt mér þetta skipurit eftir að umræða fór opinberlega fram um það. Það er algerlega á ábyrgð núverandi bankaráðs. Eftir að hafa kynnt mér það tel ég það að mörgu leyti vera ágætis skipurit og ég tel það á engan hátt binda það hvort bankastjórar hinna nýju banka, þ.e. hlutafélagabankanna, verði einn, tveir eða þrír. Ég er þeirrar skoðunar að þetta skipurit geti gengið fyrir hinar nýju stofnanir þar sem starfsemi viðkomandi banka er sett upp í þrjú meginsvið. Það hefur ekkert með það að gera hvað bankastjórarnir verða margir. Það verður ákvörðun hinna nýju stjórna að taka ákvörðun um þá hluti.

Samþykkt bankaráðs Landsbankans gengur hins vegar út á það að bankastjórunum er heimilt að hrinda þessum skipulagsbreytingum í framkvæmd fyrir áramót verði þetta síðan aftur tekið til endurskoðunar. Þegar starfstíma þessara gömlu stofnana, Búnaðarbankans og Landsbankans, lýkur ef þessi frv. verða samþykkt, um næstu áramót, þá hlýtur líka starfseminni að ljúka þannig að skipuritið verður ekki lengur til staðar. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að þetta geti vel gilt í nýjum hlutafélögum, en það verður, og það ítreka ég, ákvörðun nýrra stjórnenda hvernig það verður.

Varðandi spurningar sem snúa að bankastjórunum er, ef ég man rétt, í 9. gr. frv. eins og það liggur fyrir kveðið skýrt kveðið á um það að bankastjórar, aðstoðarbankastjórar, staðgenglar, endurskoðendur bankans, hafa ekki tryggingu fyrir störfum í hinum nýju stofnunum. Það gildir hins vegar allt öðru máli um annað starfsfólk þar sem því eru tryggð sambærileg störf í hinum nýju hlutafélögum við þessa formbreytingu. Ákvörðunin um skipuritið hefur engin áhrif á réttarstöðu eða starfskjör þeirra starfsmanna sem ég taldi hér upp. Nýráðning á einum bankastjóra til fimm ára þýðir ekki að viðkomandi bankastjóri eigi rétt á fimm ára launum fái hann ekki ráðningu við hina nýju banka. Hann á rétt á launum í þann tíma sem uppsagnarfrestur viðkomandi aðila er.

Ég er líka þeirrar skoðunar að viðkomandi aðili eigi ekki rétt á biðlaunum frekar en aðrir sem starfa í bönkunum í dag. Ég tel engan vafa í þessum efnum.

Að lokum þetta. Ég fagna þessari breyttu afstöðu Alþb. til fjárfestingarbankans, sem við ræðum reyndar um á eftir. Ég tel að hún sé mjög mikilvæg og tel hana vera setta fram í anda þess að Alþb. vilji horfa á, eins og ég tel að ríkisstjórnin geri, þær breytingar sem þessi þrjú frumvörp, hlutafélagavæðing Landsbankans og Búnaðarbankans, sameining fjárfestingarlánasjóðanna og stofnun nýsköpunarlánasjóðsins, sem eina heildaraðgerð á fjármagnsmarkaðinum sem menn geta vel hugsað sér að hefði farið einhvern veginn öðruvísi en sett er nákvæmlega upp hér. En við látum síðan markaðinn leysa úr þeim vandamálum sem þarna verða til, verði einhver vandamál.