1997-05-13 00:44:39# 121. lþ. 122.20 fundur 408. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.# frv., Frsm. 3. minni hluta ÁE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[24:44]

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Mér þykir rétt við 3. umr. að fram komi að hv. efh.- og viðskn. tók málin, þ.e. fjárfestingarbankann og nýsköpunarsjóðinn, til umfjöllunar milli 2. og 3. umr. Tilefnið var fyrst og fremst að fá til viðtals við nefndina aðila sem tengjast þessum nýju bönkum ríkisstjórnarinnar, þ.e. forsvarsmenn Fiskveiðasjóðs, Iðnþróunarsjóðs, Iðnlánasjóðs og fulltrúa frá sjávarútvegssamtökum og iðnaðarsamtökum. Eins og menn vita er fjárfestingarbankinn sameinuð stofnun þessara þriggja fjárfestingarlánasjóða og samtök í sjávarútvegi og iðnaði eiga að stilla upp stjórnarmönnum bæði Fjárfestingarbanka og í Nýsköpunarsjóði.

Tilefnið var fyrst og fremst það að fyrr í umfjöllun um málið höfðu komið fram áhyggjur af hálfu sjóðstjórana, að það að taka út eigið fé upp á 1 milljarð úr Fjárfestingarbankanum miðað við frv. eins og það var lagt fram, kynni að hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér á erlendum mörkuðum og jafnvel leiða til þess að lán yrðu gjaldfelld á viðkomandi sjóði. Það var einkum Fiskveiðasjóður sem menn höfðu þar í huga því að eins og menn vita býr hann ekki við ríkisábyrgð og hefur nokkra sérstöðu í þessari umræðu.

Það er skemmst frá því að segja að viðtöl okkar við sjóðstjórana leiddu í ljós áframhaldandi áhyggjur þeirra varðandi það að minnka eigið fé Fjárfestingarbankans um 1 milljarð. Það er hins vegar mikið matsatriði hvort afleiðingar af þessari aðgerð meiri hluta efh.- og viðskn. verði jafnalvarlegar og fyrstu viðbrögð gáfu til kynna. Ég hef í sjálfu sér ekki ástæðu til að telja að svo sé, en mér finnst hins vegar rétt að fram komi við 3. umr. áhyggjur þessara aðila varðandi þær brtt. sem meiri hluti efh.- og viðskn. gerði á frv. og verða væntanlega greidd atkvæði um á morgun.

Það er hægt að draga fram að staðfest er að afstaða okkar í stjórnarandstöðunni sem stóðum saman að áliti varðandi Fjárfestingarbankann er rétt, þ.e. stefna ríkisstjórnarinnar, að búa til nýjan fjárfestingarbanka með því að sameina fjárfestingarlánasjóðina, er röng. Öll rök og umræða eftir 2. umr. hefur sýnt sig að það hefði verið mun farsælli leið að leggja sjóðina inn í ríkisviðskiptabankana og viðskiptabankaumhverfið, styrkja það og skapa þar lífvænlegri einingar.

Við fluttum við 2. umr. rök fyrir þessum skoðunum okkar. Við lögðum fram tillögu við 2. umr. um að málið yrði unnið betur og því vísað til ríkisstjórnarinnar. Eins og aðrar góðar tillögur frá okkur í stjórnarandstöðunni var þessi tillaga felld. Það breytir því ekki að uppstokkunin mun ná fram að ganga og þá á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Þessi nýi ríkisbanki í fjárfestingarumhverfinu er tímaskekkja eins og flestir viðmælendur okkar töluðu um, enda er meginefni þess að setja á stofn þennan banka fyrst og fremst að tryggja hina pólitísku hagsmuni ríkisstjórnarflokkanna nú í bankakerfi eins og hefur verið gert mjög víða í pólitísku lífi undanfarna áratugi. Það kemur ekkert á óvart varðandi þessa afgreiðslu stjórnarflokkanna en ég tel rétt að nefna samt sem áður, herra forseti, að áhyggjur þeirra manna sem við töldum ástæðu til að kalla aftur fyrir nefndina eru til staðar. Hins vegar vil ég ekki gera of mikið úr því máli. Menn verða alltaf að vera varkárir þegar talað er um bankamál og sjóðamál, ekki hvað síst þeir sem eiga viðskipti á erlendum mörkuðum. Ég tel í sjálfu sér ekki vera hættu á ferðinni þótt þetta sé lögfest með þessum hætti eins og meiri hlutinn leggur til, en fyrst og fremst er þessi tillaga og upplegg óskynsamlegt eins og ríkisstjórnin er að knýja hér í gegn en það er hennar mál. Það er hún sem hefur þingmeirihlutann. Við í stjórnarandstöðunni getum ekkert gert annað en reyna að benda á betri og skynsamlegri leiðir í þeim efnum, en að lokum verður vitaskuld meiri hluti á hinu háa Alþingi að ráða.