1997-05-13 01:05:01# 121. lþ. 122.21 fundur 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[25:05]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir góðar óskir til starfsemi Nýsköpunarsjóðs í framtíðinni og vona sannarlega að þær rætist. Ég vona að hv. þm. sé sammála mér um að þörf sé á eigin fé fyrir nýsköpunarverkefni á landsbyggðinni og sérstaklega á þeim sviðum þar sem atvinnulíf þarf að þróast áfram, en þá á ég sérstaklega við svið tengd hátækni og upplýsingatækni sem skapa eftirspurn eftir ungu og menntuðu fólki.

Hv. þm. gat þess að þeir fulltrúar sem hefðu komið á fund efh.- og viðskn. og hygðust ráðskast með þennan sjóð hefðu kannski ekki mikla trú á þessari nýju leið. En einmitt þess vegna er afar mikilvægt að það á að bjóða út reksturinn á þessum potti og jafnvel fleiri en einum vonandi. Vonandi geta nokkrir aðilar komið að því að reka þennan milljarð, menn sem hafa þá trú á því sem þeir eru að gera og taka þátt í þeirri áhættu sem þarna er á ferðinni. Ég hygg að þegar upp er staðið, muni hv. þm. sjá eftir því að hafa ekki stutt þetta mál, jafnmiklar framfarir og eiga nú eftir að leiða af þessari ráðstöfun á landsbyggðinni á næstu árum.