Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 11:10:07 (6247)

1997-05-13 11:10:07# 121. lþ. 123.7 fundur 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., SvG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[11:10]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það hefur gefist illa í seinni tíð fyrir stjórnarandstöðuna að styðja stjórnarfrv. eins og kunnugt er. Stjórnarandstaðan vildi styðja frv. til laga um lífeyrissjóði en ríkisstjórnin tók þá ákvörðun um að breyta frv. þannig að það var ekki hægt að styðja það. Þetta frv. sem hér eru greidd atkvæði um er þannig úr garði gert að við alþýðubandalagsmenn höfum tekið því heldur vel. Hins vegar höfum við kannski ekki látið í ljósi og látið uppi beinan stuðning og mjög ákveðið við málið fyrr en núna við atkvæðaskýringu í 3. umr. enda hefur ríkisstjórnin ekki snúist gegn því. Reynslan segir okkur að það er vissara að vera ekki með málum fyrr en alveg á síðustu stundu ef við ætlum að koma þeim í gegn, ef það eru þjóðþrifamál sem stjórnin er sjálf að flytja því hún snýst yfirleitt á móti sjálfri sér ef stjórnarandstaðan styður þau. Þannig að við féllum ekki í þá gryfju í þetta skipti og teljum að þetta sé sæmilegt mál eftir atvikum þó það sé búið að eyðileggja margar brtt. fyrir okkur. Ég tel að það megi eftir atvikum veita þessu máli brautargengi.