Kosningar til Alþingis

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 11:42:14 (6265)

1997-05-13 11:42:14# 121. lþ. 123.38 fundur 116. mál: #A kosningar til Alþingis# (atkvæðagreiðsla erlendis) frv., Frsm. SP (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[11:42]

Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 80/1987, með síðari breytingum. fyrir hönd allshn.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólaf W. Stefánsson frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og Bjarna Sigtryggsson frá utanríkisráðuneytinu. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Hagstofu Íslands og utanríkisráðuneytinu.

Frumvarpið felur í sér tillögu um breytingar á kosningalögum sem auðvelda eiga Íslendingum sem búa erlendis að kjósa utan kjörfundar. Telur nefndin æskilegt að stuðlað sé að því að sem flestir þessara aðila geti nýtt kosningarrétt sinn. Í máli fulltrúa dómsmálaráðuneytisins kom fram að í ráðuneytinu væri nú unnið að breytingum á kosningalöggjöfinni og yrði frumvarp þess efnis lagt fram á Alþingi næsta haust. Mælist nefndin til þess að efnisatriði þessa frumvarps verði tekin inn í þá endurskoðun og leggur til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnar.

Allir nefndarmenn allshn. undirrita þetta nál.