Kosningar til Alþingis

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 12:21:10 (6280)

1997-05-13 12:21:10# 121. lþ. 123.38 fundur 116. mál: #A kosningar til Alþingis# (atkvæðagreiðsla erlendis) frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[12:21]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Ég vil aðeins koma inn í þessa umræðu aftur sem nefndarmaður í allshn. Ég vil byrja á að mótmæla þeim orðum formanns nefndarinnar um að mörg þingmannamál hafi verið tekin út úr nefndinni. Mér vitanlega --- hún leiðréttir mig þá ef það er ekki rétt --- hafa einungis tvær tillögur komið út úr nefndinni og þeim var báðum vísað til ríkisstjórnarinnar. Önnur er sú sem við erum að tala um og hin er tillaga um ofbeldi gegn konum. Að mínu mati geta þetta ekki talist mörg mál og eina þingmannamálið þar fyrir utan sem hugsanlega má líta á að fái hér einhverja afgreiðslu er frv. til laga, sem ég og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir lögðum fram um hækkun á sjálfræðisaldri. Það má líta svo á að okkar frv. hafi fengið afgreiðslu þar sem það er tillaga meiri hluta allshn. að gera þá lagabreytingu sem þar er lögð til. En ég mótmæli því alfarið að mörg þingmannamál hafi fengið afgreiðslu í nefndinni. Það var reyndar svo að þau voru aldrei sett á dagskrá --- kannski einu sinni, ég man það ekki alveg. En í langflestum öðrum nefndum sem ég hef setið í, m.a. sjútvn. og iðnn. hafa þingmannamál fengin umfjöllun. Menntmn. hefur verið slæm með þetta en þó hafa málin a.m.k. verið sett á dagskrá en reyndar mjög lítið afgreidd úr nefndinni. Ég vil ítreka þetta.

Í öðru lagi vil ég koma inn á það mál sem hér hefur orðið tilefni til umræðu, þ.e. frv. til breytinga á kosningalögum, sem hv. þm. Svavar Gestsson flutti. Ég vil taka undir þá skoðun hans að auðvitað er um mjög mikilvægt mannréttindamál að ræða. Mjög eðlilegt væri að það færi inn í sömu endurskoðun og það frv. sem núna á að vísa til ríkisstjórnarinnar. Það var hins vegar ekki pólitískur vilji fyrir því innan meiri hluta nefndarinnar. Það var sem sagt pólitísk andstaða við málið eins og hér hefur komið fram. Við því getum við stjórnarandstæðingar auðvitað ekkert gert.