Rekstur Fríhafnarinnar í Leifsstöð

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 13:35:06 (6296)

1997-05-13 13:35:06# 121. lþ. 123.95 fundur 329#B rekstur Fríhafnarinnar í Leifsstöð# (umræður utan dagskrár), Flm. GÁS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[13:35]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Sl. föstudag tilkynnti hæstv. utanrrh. á blaðamannafundi nánast í beinni útsendingu að fækkað yrði í hópi núverandi starfsmanna í Leifsstöð á Keflavíkurflugvelli um 60--70 manns. Hann gerði á þessum fundi tillögur nefndar sem hann skipaði í febrúar sl. að sínum. Þær þýða á mæltu máli að dregið verður úr núverandi starfsemi Fríhafnarinnar þannig að vænta má að um 50 manns af um það bil 130 starfsmönnum verði frá að hverfa þegar samdrátturinn verður að veruleika.

Í annan stað er ráð fyrir því gert að helminga það umfang sem Íslenskur markaður hefur haft til umráða. Það þýðir að sjálfsögðu óhjákvæmilega uppsagnir hjá hluta þeirra 20--30 einstaklinga sem þar hafa atvinnu.

Í þriðja lagi er ýjað að því að fækka í tollgæslunni, leggja af vegabréfaskoðun við brottför og fela einkaaðilum mikilvæga vopnaleit. Um það bil 30 tollverðir spyrja því að sjálfsögðu: Hvað verður um störfin okkar? Í fjölmiðlum svarar hæstv. utanrrh. því einu til að með nýjum rekstraraðilum og hugsanlega auknu umfangi í verslun og þjónustu í Leifsstöð komi ný störf í stað þeirra sem hverfa. Hræddur er ég um að slíkar yfirlýsingar séu léttar í vasa hjá þeim einstaklingum sem nú fylgjast með þessari umræðu, hafa sitt lifibrauð af því að starfa hjá fyrrgreindum stofnunum. Það fólk hefur nákvæmlega engar tryggingar fyrir áframhaldandi atvinnu þegar nýir rekstraraðilar setjast að í Leifsstöð. Eða ætlar ráðherrann að tryggja það persónulega að það fólk sem missir störfin gangi fyrir í störfum hjá nýjum rekstraraðilum? Það verði með öðrum orðum hluti af útboðsskilmálum þegar nýir aðilar hefja rekstur suður á velli. Því þarf ráðherrann að svara skýrt og afdráttarlaust.

Hann og hans menn létu ekki svo lítið að efna til fundar með starfsfólki þarna suður frá vegna þessarar fyrirhuguðu breytingar þannig að blaðamannafundurinn var eins og köld vatnsgusa framan í þá 200 starfsmenn sem þarna vinna, uppsögn í beinni útsendingu. Ekki beint í anda þeirra 12 þúsund nýju starfa sem Framsfl. og formaður hans, hæstv. utanrrh., lofaði fyrir síðustu kosningar, eða hvað?

En það er fleira gagnrýni vert við framkomu ráðherrans og tillögur sem satt að segja eru ákaflega klisjukenndar og lítt ígrundaðar. Fullyrt er að með því að draga úr umfangi Fríhafnarinnar, sem hefur verið gullkista fyrir ríkissjóð á liðnu árum, og færa þjónustuna í hendur einkaaðila með útboðum verði unnt að auka tekjurnar um heilar 100 millj. kr. Það er einfaldlega sýnd veiði en ekki gefin. Fríhöfnin skilaði heilum 650 millj. kr. í ríkissjóð á síðasta ári og tekjur hennar hafa farið vaxandi ár frá ári.

Þess má vænta að þeir einkaaðilar sem til skjalanna koma muni ætla að hirða einhvern arð af sinni starfsemi og það er því bókstaflega broslegt að nefnd ráðherrans telji það sérstakan tekjuauka að einkaaðilar muni greiða tekjuskatt sem ekki hafi verið greiddur áður. En það er líka það eina sem þessir aðilar munu greiða í ríkissjóð fyrir utan aðstöðugjaldið og leiguna því að hver einasta króna frá Fríhöfninni mun renna til eigandans. Hver verður þá gróði fyrir ríkissjóð þegar upp er staðið og frá er dregið það aukna umfang sem gert er ráð fyrir að verslunarrekstur skili af sér? Því verður að svara.

Samkvæmt upplýsingum sem ég hef aflað mér lætur nærri að velta Fríhafnarinnar af áfengi, tóbaki og snyrtivörum sé um 60% af heildarumsetningu. Það segir því að um 40% af tekjum hverfa. Það segir líka að um 40% starfsmanna Fríhafnar missa vinnuna. Flóknara er þetta reikningsdæmi ekki.

Víkur þá sögunni að hinum aðalþjónustuaðilanum í Leifsstöð, Íslenskum markaði. Sú verslun er meira en venjuleg verslun. Þar er um að ræða framvörð íslenskra matvæla og iðnaðarframleiðslu. Þar birtist erlendum ferðamönnum það besta og helsta sem íslenskir iðnframleiðendur bjóða. Nú á að kippa fótunum undan þessu markaðsstarfi með því að helminga það verslunarpláss sem Íslenskur markaður hefur haft. Það eru ekki eingöngu þeir starfsmenn sem vinna syðra sem eru í uppnámi vegna þess arna, heldur ekki síður þeir sem að baki standa, íslenskir iðnframleiðendur.

Á síðustu dögum hefur haft samband við mig fjöldi þessara rekstraraðila í matvælaframleiðslu og prjónavöru sem segja að hugmyndir ráðherrans um almennt útboð þýði einfaldlega að erlendur varningur mun flæða yfir á kostnað þess íslenska. Þeir hafa jafnvel gengið svo langt að fullyrða að störf 50--60 manna í íslenskum iðnaði sé í áhættu, störf víða úti um land í smáum fyrirtækjum. Er þetta það sem Framsfl. stefnir að?

Svo er þessi undarlega yfirlýsing um að bjóða út og leggja niður vegabréfaskoðun og einkavæða vopnaleit við brottför. Hefur nefndin og ráðherrann ekki hugmynd um að þeir tollverðir sem starfa syðra eru að sjálfsögðu nýttir jöfnum höndum við brottför og komu þannig að nýting á mannskapnum er einkar góð, merkt brottfarir að morgni dags og síðan komur síðdegis. Telur ráðherrann það auka hagkvæmni að tvískipta þessum öryggisþætti og telur hann það auka öryggi sem er sívaxandi vandamál á flugvöllum?

Að lokum þetta: Tekjuaukningin er sýnd veiði en ekki gefin. Málið allt ákaflega vanhugsað, ríkissjóður verður einfaldlega að slaka á klónni og gefa eitthvað eftir af þeim tekjum sem hann hefur hrifsað til sín í ríkissjóð til þess að greiða niður skuldir flugstöðvarinnar. Það voru þessir tveir flokkar, Framsókn og Sjálfstfl. sem báru ábyrgð á þessum skuldum, reistu þessa flugstöð og það fer vel á því að þeir greiði hana til baka.