Rekstur Fríhafnarinnar í Leifsstöð

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 13:48:26 (6299)

1997-05-13 13:48:26# 121. lþ. 123.95 fundur 329#B rekstur Fríhafnarinnar í Leifsstöð# (umræður utan dagskrár), EKG
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[13:48]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hæstv. utanrrh. sagði að það verkefni sem við stöndum frammi fyrir er einfaldlega það að þær skuldir sem eru á Flugstöð Leifs Eiríkssonar eru rúmlega 4.000 millj. kr. Það er verkefni okkar að reyna að ná niður þessum skuldabagga sem stjórnvöld fyrri ára hafa því miður ekki haft samstöðu um að vinna á. Þess vegna skiptir það auðvitað mjög miklu máli að okkur takist að ná sem mestum tekjum út úr flugstöðinni með þeirri starfsemi sem þar fer fram. Það er einfaldlega það sem verið er að leggja til í þessu nefndaráliti í fyrsta áfanga, þ.e. að reyna búa svo um hnútana að Flugstöð Leifs Eiríkssonar geti aflað tekna til þess að standa undir þessum miklu skuldum sem við erum hér að glíma við.

Sannleikurinn er sá að í dag er flugstöðin ákaflega illa nýtt og tekjumöguleikarnir eru miklu meiri en verið er að nota sér núna. Þá er auðvitað verkefnið það að reyna að búa þannig um hnútana að við getum aukið tekjurnar til standa undir þessum 4.000 millj. kr.

Það var mjög einkennilegt að heyra málflutning hv. 9. þm. Reykn., Guðmundar Árna Stefánssonar, áðan því að það var ómögulegt annað en draga þá ályktun af hans málflutningi að hann teldi langsamlega skynsamlegast að eftirláta ríkinu sem mestan hluta af verslunarstarfsemi í landinu því þannig væri hægt að tryggja að þeir peningar rynnu í ríkissjóð. Þetta er í hnotskurn hin nýja jafnaðarstefna, eða hvað? Er hv. þm. kannski að halda því fram að ríkið sé best til þess fallið að selja allar neysluvörur í flugstöðinni, hljómplötur, fatnað, reiðhjól og gasgrill eins og núna tíðkast í Fríhöfninni? Er það þetta sem hv. þm. er að boða með málflutningi sínum?

Það er alrangt sem hér hefur verið haldið fram enn fremur að verið sé að draga úr vægi íslenskrar iðnframleiðslu. Það er alls ekki þannig. Ég bendi á að talsmaður Íslensks markaðar hefur einmitt vakið máls á því að ekki sé gengið nógu langt í því að bjóða út verslunarrými í flugstöðinni þannig að fleiri komist að við verslunarrekstur en bara ríkið.