Rekstur Fríhafnarinnar í Leifsstöð

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 14:06:25 (6306)

1997-05-13 14:06:25# 121. lþ. 123.95 fundur 329#B rekstur Fríhafnarinnar í Leifsstöð# (umræður utan dagskrár), Flm. GÁS
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[14:06]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Það er augljóst mál að samviska Framsfl. í þessu máli er eitthvað broguð. Formaður hv. nefndar kannast ekki við eigin tillögu. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Einkaréttur Fríhafnar til sölu verði takmarkaður við áfengi, tóbak og snyrtivörur.`` Ég legg til að hv. formaður lesi sína eigin tillögu.

Hæstv. ráðherra er mjög vanstilltur í máli, eyðir tíma sínum í ómerkilega útúrsnúninga um einhvers konar þjóðnýtingaráform en lætur ekki svo lítið að reyna að svara þeim efnislegu spurningum sem ég lagði hér fram og starfsfólk þar syðra og þeir hagsmunaaðilar sem bíða eftir yfirlýsingum hans vilja fá að heyra. Ég vil því biðja hann um að vera hófstilltan í sínu seinna svari og koma efnislega að þessu máli.

Í þriðja lagi vildi ég nefna þátt hv. þm. Hjálmars Árnasonar sem reyndi hér með aumlegu yfirklóri að tala um að óvissu hafi verið eytt. Það er verið að skapa óvissu í starfsemi Fríhafnarinnar og hjá þeim 200 starfsmönnum sem þar vinna. Það er staðreynd málsins og það er ekki ég sem er að skapa þá óvissu. Nei, það er sú nefnd sem er sérstakur ráðgjafi ráðherrans í þessum málum. Hæstv. ráðherra gengur hér fram og segir að ég hafi ekki aflað mér upplýsinga. Þvert á móti hef ég gert það. Og ég hef gert það sem hann virðist ekki hafa gert, rætt við þá aðila sem hlut eiga að máli, það fólk sem þarna vinnur og hefur sitt lifibrauð af því. Ég ráðlegg hæstv. ráðherra að skreppa suður eftir og eiga orðastað við þetta fólk og heyra frá fyrstu hendi hvort það sé kyrrð og friður eða öryggi sem þar svífi yfir vötnum. Nei, það er auðvitað ekki svo. Hér eru mál í fullkomnum ólestri og hefur ekkert með einkarekstur eða ríkisrekstur að gera heldur er einfaldlega um að ræða vanhugsaðar og illa ígrundaðar tillögur með ýmiss konar aukaverkanir í för með sér. Og starfsfólk spyr auðvitað: Hvar stend ég? Hvað er til ráða?

Ég segi enn og aftur, virðulegi forseti, og það verða mín lokaorð: Vitaskuld fer vel á því að það verði þessir ríkisstjórnarflokkar sem sópi eftir sig sullumbullið frá því 1987. En er það heilög tala, hæstv. ráðherra að það skuli vera 650 millj. sem renna í ríkissjóð frekar en 550 eða hvað eina? Hér er ekki verið að tala um að kreista neitt úr ríkissjóði. Einfaldlega það að stöðin fái til sín það sem henni ber.