Lögræðislög

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 14:46:08 (6316)

1997-05-13 14:46:08# 121. lþ. 123.40 fundur 410. mál: #A lögræðislög# (heildarlög) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[14:46]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta er mjög merkilegt mál sem hér er tekið á dagskrá og ástæða til að vekja athygli á því að samstaða er um þetta brýna mál, breytingu á lögræðislögunum, milli stjórnar og stjórnarandstöðu vegna þess að væntanlega hefur þjóðin það viðhorf að hér sé eiginlega allt í ágreiningi en það er síður en svo. Langflest merkileg lög eru sett í mikilli sátt.

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp út af einu atriði, en vil þó áður nefna hvað ég fagna því að nú er sett í lög að lögráða verða menn 18 ára og lögráða maður er jú sjálfráða og fjárráða. Eins og fram kom hjá síðasta ræðumanni hefur þetta mál ítrekað verið til umfjöllunar hér og við jafnaðarmenn höfum einhuga haft þá afdráttarlausu skoðun að 18 ára mörkin ættu að vera í allar áttir og viðmið 18 ára með lögræði. Ég fagna þessu ákvæði og að nefndin skyldi komast að þessari niðurstöðu.

Virðulegi forseti. Ég hef á liðnum árum í nokkur skipti borið fram fyrirspurn til dómsmrh. um endurskoðun þessara laga út af sérstöku atriði og það varðar sjálfræðissviptingu þroskaheftra. Ég hef bent á að samkvæmt lögum fær sá sem sviptur er sjálfræði ekki sjálfræði á ný fyrr en orsök þess að viðkomandi var sviptur er ekki lengur til staðar. Þegar um er að ræða þroskaheftan einstakling sem sviptur er sjálfræði, t.d. vegna viðkvæmra læknisaðgerða, er orsökin óbreytanleg, nefnilega sú staðreynd að viðkomandi er þroskaheftur og það mun ekki breytast. Þess vegna hefur verið mjög mikil áhersla lögð á það af hálfu samtaka fatlaðra að unnt sé að svipta slíkan einstakling sjálfræði tímabundið og sú sjálfræðissvipting endurheimtist sjálfkrafa síðar. Um þetta höfum við dómsmrh. rætt og hann hefur boðað að í endurskoðun laganna verði tekið á þessu ákvæði.

Nú er ljóst að ákvæðið sem fjallar um tímabundna sviptingu kveður á um sex mánaða sviptingu sem er miklu lengra tímabil en þessi samtök töldu fyrir fram að sett yrði í lög ef slík bráðabirgðasvipting yrði lögfest. Mér hefur verið bent á, af því að það hefur borið á óánægju með að þetta sé eina ákvæðið sem mögulegt er að vísa í til að svipta einstakling sjálfræði t.d. vegna nokkurra daga aðgerðar, eins og ég hef nefnt, en að viðkomandi yrði að bíða í hálft ár, þá hefur mér verið bent á 15. gr. þar sem segir: ,,Nú telur sá sem átt getur aðild að lögræðissviptingarmáli að ástæða sviptingar sé ekki lengur fyrir hendi og getur hann þá borið fram kröfu við héraðsdómara um að lögræðissvipting verði felld niður með úrskurði að nokkru eða öllu leyti.``

Ég spyr forsrh. í fyrsta lagi hvort það hafi komið til að slík sjálfræðissvipting sem endurheimtist sjálfkrafa eftir ákveðinn tíma tæki til skemmri tíma. Í öðru lagi spyr ég hvort sú leið sem sagt er að fara megi skv. 15. gr. sé einhver flýtileið eða hvort það sé hefðbundin leið fyrir dómstólum.