Lögræðislög

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 15:21:12 (6326)

1997-05-13 15:21:12# 121. lþ. 123.40 fundur 410. mál: #A lögræðislög# (heildarlög) frv., VS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[15:21]

Valgerður Sverrisdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða hér í sjálfu sér mjög merkilegt mál og það er ljóst að það er að mestu leyti huglægt mat sem hv. þm. leggja á þetta atriði, þ.e. hvort við eigum að hækka sjálfræðisaldurinn úr 16 og upp í 18 ár. Hv. þm. sem hér talaði, Árni R. Árnason, 6. þm. Reykn., flutti málefnalega ræðu um þetta atriði og rökstuddi sitt mál að mínu mati. En það sem ég hjó sérstaklega eftir í málflutningi hans og ég er alveg ósammála honum um, er þegar hann segir að með þessari breytingu séum við að ákveða það, og það jafngildi því að það eigi sér stað, sjálfræðissvipting þeirra ungmenna sem sjá fram á að fá ekki sjálfræði fyrr en 18 ára en hefðu ella fengið það 16 ára. Mér finnst þetta vera mjög stórt sagt og ég lít ekki svona á málið vegna þess að þessi ungmenni hafa ekki öðlast sjálfræði þó þau hafi átt von á því að öðlast það 16 ára.

Það er aðallega þetta atriði sem ég vildi nefna hér í andsvari vegna þess að mér finnst þetta vera mjög stórt mál ég ég sætti mig ekki við þetta mat hv. þm. Það hefur fyrst og fremst með það að gera í mínum huga að ég er þeirrar skoðunar eftir að hafa farið í gegnum þetta mál í hv. allshn. að það sé rétt að börn hér á landi verði sjálfráða 18 ára eins og tíðkast hjá okkar nágrannaþjóðum og eins og kveðið er á um í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna en ekki 16 ára eins og lög kveða á um nú.