Lögræðislög

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 15:40:01 (6329)

1997-05-13 15:40:01# 121. lþ. 123.40 fundur 410. mál: #A lögræðislög# (heildarlög) frv., HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[15:40]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Það hefur komið fram í umsögnum flestra aðila að auðvitað eru skiptar skoðanir bæði meðal þeirra hópa sem senda inn umsagnir um málið og eins í þjóðfélaginu. Það kom fram t.d. í umsögn Félags framhaldsskólanema að meðal framhaldsskólanema væru mjög skiptar skoðanir. Ég vildi gjarnan heyra í fleirum þeirra heldur en eru í stjórninni og tjá sig í þeirra umsögn. Ég tel mjög vænlegt til árangurs að nálgast málið út frá sjónarmiðum 16--18 ára unglinga og jafnvel þeirra sem yngri eru. Þeim tíma í skólakerfinu væri ugglaust vel varið sem færi í að velta fyrir sér þeim reglum og þeirri ábyrgð sem hvorir tveggja um sig bera, börn og fullorðnir.

Hins vegar kom hér fram hjá hv. frsm. og formanni allshn., Sólveigu Pétursdóttur, að ætlunin væri að tryggja ábyrgð foreldra. Það er alveg hárrétt. Ég lít svo á að það sé nánast neyðarúrræði að hækka sjálfræðisaldurinn í 18 ár, nánast neyðarúrræði í því að tryggja börnunum ábyrgð af hálfu foreldranna.