Staða þjóðkirkjunnar

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 16:18:04 (6335)

1997-05-13 16:18:04# 121. lþ. 123.12 fundur 301. mál: #A staða þjóðkirkjunnar# frv., StG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[16:18]

Stefán Guðmundsson:

Virðulegi forseti. Það er mjög mikilsvert að þeim deilum sem staðið hafa innan kirkjunnar fari að linna. Ábyrgð þeirra er þeim hafa valdið er vissulega mikil. Því miður eru þær brtt. sem hér eru lagðar til að gerðar verði á frv. um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar ekki líklegar til að slökkva þá elda er brunnið hafa í kirkju- og safnaðarstarfi. Alþingi á ekki á þessari stundu að grípa inn í á þann hátt sem hér er gert með breytingu þvert á það sem mikill meiri hluti kirkjuþings hafði samþykkt. Umræður um meginefni þessa frv. hafa farið fram hjá þingi og þjóð og um málið er ekki nægjanleg sátt.

Þar sem ekki náðist samkomulag um tillögur mikils meiri hluta kirkjuþings tel ég rétt að fresta afgreiðslu málsins á þessu þingi. Þannig og með tilliti til þeirra breytinga sem nú eru að verða innan kirkjunnar fái kirkjuþing að fjalla að nýju um málið og reyna til þrautar að ná um það sem víðtækastri sátt.

Virðulegi forseti. Ég sit hjá við atkvæðagreiðsluna.