1997-05-14 01:35:24# 121. lþ. 123.50 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[25:35]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. talar um að mikil réttaróvissa hafi verið í þessu máli. Í praxís hefur þetta verið svo að menn hafa þinglýst kvöð um að menn muni ekki selja aflaheimildir frá skipi nema með samþykki veðhafa. Það hefur verið praktíserað í þessum málaflokki. Þessari kvöð hefur verið þinglýst þannig að þetta hefur verið gert í frjálsum samningum. Ég hlýt því að spyrja: Duga frjálsir samningar ekki lengur þegar nauðsyn krefur á því að gæta hagsmuna lánastofnana, hagsmuna þeirra sem meira mega sín í samfélaginu? Þarf þá að tryggja þeirra réttindi sérstaklega? Af hverju geta þeir ekki samið einfaldlega eins og frjálsir menn úti á markaði?

Vitaskuld er réttaróvissa í öllum samningum vegna þess að þeim þarf að framfylgja. En ef einstök dæmi þess að þessum tilteknu samningum hafi verið framfylgt, þá þurfi löggjafinn sérstaklega að koma til og vernda hina smáu, vernda bankastofnanir, vernda sjóði, þá hlýt ég að spyrja: Af hverju nákvæmlega þessi forréttindi til þessa hóps sérstaklega? Hér hafa ekki komið fram nokkrar röksemdir fyrir því, ekki einar einustu. Hér hefur aðeins verið reynt að sýna fram á að ef af lögfestingu þessa margumrædda ákvæðis verður þá muni það ekki leiða til bótaskyldu, þá muni það ekki leiða til eignarréttar, þá muni það styrkja sameignarákvæði 1. gr. laga um stjórn fiskveiða. Það muni ekki leiða til þessa. En það kemur hvergi fram og hefur hvergi komið fram í umræðu hvert raunverulegt markmið er með því að heimila veðsetningu kvóta, því miður. Markmiðið er ekki annað en að tryggja hagsmuni þeirra sem meira mega sín, banka, sjóða og þess háttar.