1997-05-14 02:31:03# 121. lþ. 123.50 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., Frsm. 2. minni hluta JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[26:31]

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Alloft á þessum vetri hefur það verið hlutskipti hv. 2. þm. Austurl., Jóns Kristjánssonar, að koma í ræðustól og telja þinginu trú um að Framsfl. sé trúr sinni stefnu. En því trúir nú orðið enginn maður nema helst þeir sjálfir vegna þess að hægt er að rekja hvert málið á fætur öðru þar sem þeir hafa gengið í björg hjá íhaldinu og eru enn að gera aftur í þessu máli. Það er mjög sérkennilegt að hv. þm. geti haldið því fram aftur og aftur að ekki sé verið að heimila að veðsetja aflaheimildir með skipi. Það lengsta sem þingmaðurinn gengur í því efni til að viðurkenna það var hér áðan þegar hann sagði að skipið yrði verðmætara með aflaheimild. Ég held að hv. þm. ætti að viðurkenna staðreyndir í því máli og lesa vel þessar tvær málsgreinar í 3. gr. frv. sem eru nú ansi framsóknarlegar. Þær eru opnar í báða enda, það sem er heimilað í öðrum málslið 4. mgr. en tekið til baka aftur í hinum. Til hvers er verið að þessu öllu? Til þess að tryggja hag fjármálastofnana m.a. Ég held að þessi ákvæði bjóði fram ótal hættur sem ég og hv. þm. Kristján Pálsson höfum lýst og fram kemur í nál. Þetta getur ýtt undir kvótabrask, grafið undan sameignarákvæðinu um stjórn fiskveiða og ég held að hv. þm. ætti að viðurkenna staðreyndirnar í þessu máli, að verið er að veðsetja sameign þjóðarinnar --- aflaheimildir með fiskiskipi.