1997-05-14 04:23:24# 121. lþ. 123.50 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., Frsm. 1. minni hluta KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[28:23]

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Kristján Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, virðist að mér sýnist misskilja þetta frv. gjörsamlega. Hann hefur a.m.k. ekki lesið það sem komið hefur fram í ýmsum álitum, eins og frá 1. minni hluta þar sem vitnað er í lögmann eins og Sigurð Líndal lagaprófessor, þar sem hann fullyrðir í mín eyru og hefur sagt það í hv. nefnd, að með því að heimila veðsetningar á kvóta sé verið að rýra og takmarka vald löggjafans til breytinga á núverandi fiskveiðistjórnarkerfi, það muni takmarka það. Þetta þýðir með öðrum orðum að það taki lengri tíma að breyta því. Það er ekki þar með sagt að ekki sé hægt að breyta því en það tekur lengri tíma. Hvað þýðir lengri tími? Það þýðir jafnvel tíu ár eða meira. Ég er ekki að segja að það sé nauðsynlegt að breyta kvótakerfinu. Ég hef alla tíð verið stuðningsmaður þess alveg þvert á þá skoðun sem hv. þm. Einar Guðfinnsson hefur. En hann hefur aftur á móti alla tíð lagt áherslu á að það ætti að breyta um fiskveiðistjórnarkerfi. En með því að samþykkja þetta er hann alveg að gera þvert á við það sem hann hefur hingað til viljað gera, þ.e. að fara yfir í allt annað kerfi. Mér finnst dálítið skondnar þær hugleiðingar sem hér komu fram um lánastofnanir. Eins og það komi til með að breyta einhverju sérstaklega varðandi lánastofnanir að þetta frv. verði gert að lögum? Það er alveg hárrétt að það ganga alls konar samningar milli útgerða og banka í dag sem hafa heimilað mönnum eða gert þeim kleift að fá lán. En ég á ekki von á að það breyti einu né neinu í framkvæmd í rauninni fyrir þessa aðila hvort þetta frv. gengur eða ekki. Menn fá áfram sín lán og veðsetja áfram en hið gamla góða handsal sem einu sinni gekk á að geta gengið áfram, þ.e. að hægt sé að treysta útgerðarmönnum alveg eins og útgerðarmenn geti treyst lánastofnunum.