Lánasjóður landbúnaðarins

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 11:34:45 (6444)

1997-05-14 11:34:45# 121. lþ. 124.10 fundur 424. mál: #A Lánasjóður landbúnaðarins# frv., Frsm. meiri hluta GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[11:34]

Frsm. meiri hluta landbn. (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla nú ekki að deila hér við hv. þm. Egil Jónsson. Ég get auðvitað sagt að það kom mér á óvart hvaða leið hann gekk. Það hafði verið hlustað á gagnrýni hans, eitthvað af því var tekið til greina, annað var ekki hægt að taka til greina. Hann gagnrýnir hér mjög 8. og 9. gr. frv. sem ég er undrandi á því hv. þm. er formaður Byggðastofnunar og þess vegna snúa þessar greinar náttúrlega að ábyrgð í fjármálum með hliðsjón af því sem allar peningastofnanir gera, hvernig beri að tryggja skuldirnar. Ég vil vekja athygli hv. þm. á því að forstjóri Byggðastofnunar var einn af þeim sem samdi þetta frv., Guðmundur Malmquist.

Hv. þm. segist styðja lága vexti en hér í ræðu þá fer hann frá því og talar um að hver greiði fyrir sig. Þetta er sérhyggjan. Auðvitað er verið að takast hér á við sérhyggjuna sem hv. þm. er boðberi fyrir. Ég minnist þess að forfallaþjónustan í landbúnaði var eyðilögð af sérhyggjunni, að hver greiði fyrir sig. Vextirnir eru niðurgreiddir. Hluti af vöruverðinu fer í það, og kemur yngri kynslóð og framkvæmdamönnum í landbúnaði til góða þannig að þetta stendur hér eftir.

Hvað varðar þær röngu upplýsingar sem hv. þm. var hér með, að það væri verið hækka tillegg af sauðfjár- og mjólkurkúabændum, þá er það rangt. Það er verið að lækka öll sjóðagjöld til deildarinnar. En það hefur verið svo að framlag af sauðfé og mjólk til Stofnlánadeildarinnar hefur verið hærra en af öðrum greinum og það stendur þannig. En menn mega ekki misskilja þetta þannig að það sé verið að hækka þetta sérstaklega. Það er verið að lækka öll sjóðagjöld en það stendur með sömu hlutföllum og var áður.

Hv. þm. hrósar Stofnlánadeild og telur hún að hafi verið grundvöllur nýrrar aflgjafar í sveitum. Þetta er rétt. Ég vænti þess að þessi nýi lánasjóður muni feta í fótspor Stofnlánadeildarinnar og tekur auðvitað við hlutverki hennar og kemur að góðu búi.