Lánasjóður landbúnaðarins

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 11:54:00 (6450)

1997-05-14 11:54:00# 121. lþ. 124.10 fundur 424. mál: #A Lánasjóður landbúnaðarins# frv., Frsm. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[11:54]

Frsm. minni hluta landbn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal fór hér ágætlega yfir málið og setti fram viðhorf sín og skoðanir. Hann er reyndar góður stærðfræðingur og var búinn að reikna það nokkurn veginn út hvað kæmi í hlut hvers bónda í gamla kerfinu, þ.e. greiðslur sjóðagjalda, og hvað kæmi í hinu nýja. Hann talaði um að eini möguleikinn hjá bændum til að fá þetta endurgreitt væri að taka lán á lægri vöxtum sem er alveg hárrétt hjá Pétri Blöndal.

En ástæða þess að ég kem hér upp í andsvari er einfaldlega sú að núna í nýja kerfinu fá þeir lægri endurgreiðslur í formi vegna þess að það á að hækka vextina. Þó að sjóðagjöldin lækki um einhverja x-tölu þá á að sækja til baka, þá sækir sjóðurinn aftur til baka þannig að heildarraunlækkunin er ekki næstum eins há og hér er talað um. Þótt heildarsjóðagjöldin lækki úr um það bil 130 þús. kr. niður í 80--90 þús. kr. er möguleiki bænda til að fá endurgreitt í formi lægri lána miklum mun minni vegna þess að það á að hækka vextina. Aukin heldur geta aðeins örfáir bændur fengið lán úr þessum sjóði þrátt fyrir að þeir þurfi allir að greiða í hann.

Að lokum, virðulegur forseti, eru þessi sjóðagjöld í formi veltuskatta sambærileg og aðstöðugjöldin voru þannig að í raun og veru skiptir litlu máli hverjar tekjur bændur hafa, það er veltan sem skiptir öllu máli en ekki hver laun bænda verða. Við getum tekið sem dæmi að bóndi með 6 millj. kr. veltu, sem skilar honum kannski 1 millj. í tekjur, greiðir 15% af sínum launum í sjóðagjöld.