Lánasjóður landbúnaðarins

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 12:29:48 (6463)

1997-05-14 12:29:48# 121. lþ. 124.10 fundur 424. mál: #A Lánasjóður landbúnaðarins# frv., landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[12:29]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna mikið. Fyrst og fremst þakka ég hv. landbn., formanni og nefndarmönnum öllum fyrir að hafa náð að afgreiða þetta mál. Það kemur út af fyrir sig ekki á óvart að það er afgreitt með meirihluta- og minnihlutaáliti. Það lá fyrir strax við 1. umr. um málið. Í nál. þeirra hv. þm. sem standa að minnihlutaálitinu og framsögu með því áðan kom í raun ekkert nýtt fram í viðbót við það sjónarmið sem kom fram strax í upphafi 1. umr. um að þeir teldu að öðruvísi ætti að standa að þessu. Ég svaraði því þá og lýsti viðhorfi mínu að ég teldi að það bæri að hafa sérstakan lánasjóð fyrir landbúnaðinn áfram þó að nokkuð breyttar áherslur séu frá því sem verið hefur og hér hafa verið raktar og komu fram í umræðunni og ég ætla ekki að tíunda frekar. Einnig lýsti ég því yfir að enn þá væru rök fyrir því, a.m.k. um sinn, að niðurgreiða vexti eða hafa lægri vexti hjá þessum sjóði og til þessarar atvinnugreinar en almennt gerist á markaði því að landbúnaðurinn væri ekki í þeim færum nú að takast á við markaðsvexti. Ég lýsti því hins vegar sem skoðun minni þá og get áréttað það nú að ég tel að hér sé um að ræða skref í þá átt. Ég sé það fyrir mér að það komi að því að þessi atvinnugrein verði að takast á við almenna markaðsvexti eins og aðrar atvinnugreinar. Við vitum að miklar breytingar eru í gangi. Við höfum rætt það áður og það eru engin ný sannindi eða tíðindi. Í sambandi við alþjóðleg viðskipti, alþjóðlega samninga, innflutning á landbúnaðarvörum og fleira eru aðstæður íslensks landbúnaðar að breytast verulega. Til allra þessara hluta verður landbúnaðurinn að taka tillit og hann þarf að þróast í þessa átt. Áherslumunurinn hjá okkur er kannski sá hversu hratt það gerist. Gerist það með gerbreytingu eða byltingu eða gefum við okkur tíma til að láta þetta þróast á nokkuð löngu árabili? Það er mín skoðun og er ekkert ný. Þetta hef ég sagt áður.

Mig langar aðeins að segja út af ummælum hv. þm. Egils Jónssonar, sem er því miður ekki hér í salnum en hlýðir kannski á annars staðar, á skrifstofu eða í öðrum vistarverum þingsins, að ég skildi ekki fyllilega umfjöllun hans um 8. og 9. gr. að því leytinu til að þar erum við auðvitað að ræða um skilyrði þess að landbúnaður ... --- Hér kemur hv. þm. í salinn. Hann fór mörgum orðum um afkomu landbúnaðarins og þá stöðu sem íslenskur landbúnaður er í um þessar mundir. Mér fannst e.t.v. að mér bæri í raun að taka það allt til mín, að sú staða sem landbúnaðurinn er í sé vegna þess hversu núv. ríkisstjórn og núv. landbrh. hefur haldið illa á málum greinarinnar þessi tvö ár sem ég hef setið í stóli landbrh. (EgJ: Ég nefndi nú ekki landbrh. einu orði.) Nei, en mér fannst að skilja mætti andann í ræðunni þannig. Ég hef þá vonandi misskilið það. En ég tel að þann tíma sem ég hef setið á stóli landbrh. hafi ég sýnt á mörgum sviðum að við höfum verið að breyta þar til og reyna að styrkja stöðu greinarinnar. Við settumst strax niður við að semja nýjan samning fyrir sauðfjárræktina af því að við töldum að staða hennar væri þannig að hún ekki gæti beðið heildarendurskoðunar búvörusamninga. Það tókst og ég leyfi mér að fullyrða að þeir samningar hafi haft nokkur áhrif nú þegar til að styrkja stöðuna. Afkoman hefur þrátt fyrir allt aðeins batnað á seinasta ári í þeirri grein og nú er í undirbúningi að semja við kúabændur. Áhrif búvörusamninganna hafa auðvitað verið á ýmsan hátt önnur en menn væntu í upphafi þegar þeir voru gerðir. Ég held að þau hafi meira og minna skapast af markaðsaðstæðum fremur en því að hugsunin í samningunum hafi verið röng. Ég læt það að öðru leyti liggja á milli hluta í umræðunni af því að það á ekki endilega erindi inn í hana. En ég vildi aðeins segja þetta út af þeim anda sem mér fannst liggja í ræðu hv. þm.

Mér finnst nauðsynlegt, og það hlýtur að vera svo, að þessi lánastofnun þurfi að taka tillit til afkomu í greininni og verði að setja sér reglur um hvernig eigi að standa að lánveitingum. Auðvitað er alltaf álitamál þegar ákveðin eru einhver mörk, eins og hér er gert. 60% kostnaðarverðs, á það að vera 50% eða 70% eða hvað? Menn hafa komist að þeirri niðurstöðu sem hér liggur fyrir, en það geta verið skiptar skoðanir í því efni og við því er í sjálfu sér ekkert að segja. Mér finnst það ekki geta ráðið úrslitum um afstöðuna hvort menn eru algerlega með eða móti málinu í heild sinni. Það geta verið skoðanaskipti og ágreiningur á einstökum þáttum sem varða útfærslu á þessu.

Það eru út af fyrir sig tíðindi, og ekkert við þeim að segja, ef það er afstaða hv. þm. að það beri að hætta innheimtu sjóðagjalda í landbúnaði og fella niður hina lágu vexti þannig að landbúnaðurinn kæmist á það stig að hann yrði að takast á við markaðsvexti, því það hlýtur að gerast jafnhliða. Við getum ekki fellt niður sjóðagjöldin og haldið niðri vöxtum. Það er hið stóra skref sem menn hafa talað um að ætti að stíga og gera strax. Ég hef sagt að ég er andvígur því, en hér er hins vegar stigið skref í þá átt að gera það. Það er stigið skref í þá átt að færa sig út úr því kerfi sem ríkt hefur inn á aðrar brautir. Hvað framtíðin ber nákvæmlega í skauti sér í því efni er erfitt um að segja.

Þetta var það sem ég vildi segja út af ræðu hv. þm. Egils Jónssonar. Ég var ekki fyllilega sáttur við þann tón sem mér fannst vera í ræðunni um afkomuvandann að beinlínis væri verið að glíma við hann í þessu frv. og einstakar greinar þess mætti lesa í einhverju samhengi við þá stöðu sem þar er uppi. Ég tel þvert á móti að við séum á ýmsan hátt að reyna að laga til í landbúnaðinum þó að byltingar gerist ekki. Ég hefði gjarnan viljað sjá og finna einhverjar leiðir í því efni. Ég tel mig því miður ekki hafa þær en fullyrði að verið er að stíga ýmis skref í þá átt sem styrkja greinina og auðvitað eru til ýmsir góðir bændur, sterkir og öflugir. Það er ekki allt svo aumt í sveitum að þar sé allt á hverfanda hveli og í niðurníðslu þó að vissulega mætti margt fara betur, en mér finnst sumt í umræðunum í morgun hafa mátt skilja á þá leið að hér væri allt komið að fótum fram og allt að hruni komið. Sem betur fer er það nú ekki svo.

Mig langar aðeins að leggja út af ræðu hv. þm. Péturs Blöndals. Reyndar höfðum við fjallað aðeins um sjónarmið mín við 1. umr. þessa máls. Ég hef reynt að gera honum og öðrum hv. þm. grein fyrir viðhorfi mínu til að halda áfram þessu formi sem hér er gert þó að töluverðar breytingar séu gerðar þar á og hv. þm. er þó sammála eða ég skildi hann svo, að vissulega væru ýmsir þættir í stefnumótuninni í rétta átt þó að hann vildi kannski ganga lengra og að einhverju leyti takast á við málin á annan hátt en hér er gert. Hv. þm. hafði uppi efasemdir um það hvort sanngjarnt og eðlilegt það viðhorf væri í nútímaþjóðfélagi að allir bændur, hversu vel sem þeir eru settir og hversu vel sem þeir eru tekjum búnir, þyrftu að takast á við það að standa að hinu sameiginlega kerfi. Ég er þeirrar skoðunar og frv. sem ég legg fram ber auðvitað vitni um það.

Hv. þm. sagði að andstaða hlyti að verða gegn því og menn mundu brjóta kerfið niður vegna þess að fátækustu bændurnir mundu mótmæla því að þurfa að vera þátttakendur í slíku samtryggingarkerfi. Ég hygg nú, án þess að ég sé að gera það að skoðun minni hvernig þetta muni fara, að það verði ekki endilega þeir fátækustu. Ætli það verði ekki frekar þeir sem betur eru settir sem komi til með á einhverju stigi að andmæla ef menn eru ekki alveg sáttir við kerfið og vilja knýja á um breytingar. En þetta er kannski út af fyrir sig aukaatriði í umræðunni hvernig það kemur til með að þróast.

Ég er sammála hv. þm. um að auðvitað væri nauðsynlegt að móta stefnu til lengri tíma. Þrátt fyrir allt er verið að reyna að gera það með búvörusamningum, sem mættu gjarnan vera til enn lengri tíma en þeir eru, og ég veit að mjög er sótt á um það í þeim samningi sem fram undan er varðandi mjólkurframleiðsluna að hann sé til lengri tíma. Mig langar til að minna á að ég fékk nokkrar ákúrur fyrir það hjá sumum hv. þingmönnum í fyrra þegar við ræddum um sauðfjársamninginn að verið væri að binda hendur til framtíðar, verið væri að binda hendur næstu ríkisstjórnar eða stjórnvalda í framtíðinni um slíka samninga. Ég man ekki betur en einhverjir hv. þingmenn hafi látið þau orð falla og spurt hvort ég teldi mig hafa umboð til þess og vera í færum til að búa svo um hnútana, að vera að binda samning til langrar framtíðar. En ég held að það sé algerlega nauðsynlegt.

Ég er hins vegar ekki alveg sammála því að sú langtímastefna eigi að vera, ef ég má orða það svo í einni setningu eða einu orði, niðurskurðarboðskapur. Ég fullyrði að landbúnaðurinn og bændastéttin hefur á undanförnum árum búið við það að þurfa að takast á við niðurskurð í ríkisútgjöldum með ríkisframlögum meira en nokkur annar hefur gert og enginn þáttur ríkisútgjalda hefur orðið fyrir eins miklum niðurskurði og framlög og stuðningur við landbúnað. Þá á ég ekki bara við útflutningsbætur, beingreiðslur og breytingar á niðurgreiðslum í beingreiðslur og þá þætti heldur sjálft stoðkerfið. Ég er með töflu fyrir framan mig um þróunina í stoðkerfinu en í því felst t.d. leiðbeiningar, styrkir til búfjárræktar og styrkir til jarðræktar. Á undanförnum árum hefur upphæðin lækkað úr rúmlega 600 millj. niður fyrir 200 millj. Árið 1987 er þetta að vísu hæst. Kannski hefur þá átt sér stað uppgjör þannig að sú tala, sem er 609 millj., er ekki alveg til viðmiðunar. Árin 1988, 1989 og 1990 er þetta að lækka úr 450 og niður fyrir 400 og síðan 360, 270, 250, 212. Á seinsta ári, 1996, eru það 200 millj. og í fjárlögum 1997 eru það 180 millj. Á þessum þáttum hefur því orðið umtalsverður niðurskurður á framlögum til stoðkerfis landbúnaðarins. Ég held að svo sé komið að landbúnaðurinn hafi ekki svigrúm til að verða fyrir meiri áföllum hvað þetta varðar. Menn verða að horfast í augu við það. Ég hef lýst því yfir sjálfur á opinberum vettvangi og minni á, ef við erum að horfa til lengri tíma og ef við berum það aðeins saman við það sem er að gerast í löndunum í kringum okkur, að það er ekkert sem bendir til þess að ekki verði haldið áfram umtalsverðum stuðningi við landbúnað í öllum þessum löndum. Af hverju eiga íslensk stjórnvöld að skera sig algerlega úr hvað varðar stuðning við þessa atvinnugrein? Nema menn séu þá þeirrar skoðunar að atvinnugreinin eigi yfir höfuð ekki rétt á sér og hún eigi ekki að búa við sambærileg skilyrði og í öðrum löndum. Ég er alls ekki þeirrar skoðunar. Ég verð að tala alveg skýrt hvað það varðar.

Ég tel hins vegar að ég hafi með ýmsum þeim frv. sem hér eru til umfjöllunar verið að vinna í því að breyta nokkuð um stefnu í landbúnaðarmálum og færa þau nokkuð í annan farveg en verið hefur. Ég ætla mér að halda því áfram. Ég er með drög að frv. til nýrra búnaðarlaga sem fjalla um þann stuðning sem ég var að nefna, þessarar stoðgreinar, eins og jarðræktar- og búfjárræktarframlög og leiðbeiningarþjónustu þannig að menn viti líka hvert stefnir í því og hafi fyrir framan sig fastmótaða áætlun og samið verði um það alveg eins og samið er um stuðning við mjólkina, samið um stuðning við sauðfjárræktina, það verði samið um stuðning við þessar stoðgreinar í landbúnaði. Og ég vísa því frá sem kom fram í andsvari hjá hv. þm. Ágústi Einarssyni að stefna hæstv. landbrh. hafi í umræðunum í morgun verið lýst gjaldþrota. Ég held að ég sé þvert á móti að þróa landbúnaðinn nokkuð í aðra átt og breyta ofurlítið frá því sem verið hefur þó það sé kannski ekki eins byltingarkennt eins og sumir hv. þingmenn mundu vilja hafa það.