Lánasjóður landbúnaðarins

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 12:47:39 (6465)

1997-05-14 12:47:39# 121. lþ. 124.10 fundur 424. mál: #A Lánasjóður landbúnaðarins# frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[12:47]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil bara þakka hv. þm. fyrir þau orð sem hann lætur falla í minn garð út af fyrir sig. Ég hef þá örlítið misskilið áherslur hans um stöðu atvinnugreinarinnar. Við erum ábyggilega sammála um að þar er margt að og þar þarf að taka til hendi og leita leiða til þess að rétta hlut landbúnaðarins og fjölmargra íslenskra bænda. Ástandið sem nú ríkir á sér langan aðdraganda sem kannski enginn einn verður sóttur til saka fyrir og ég gerði það ekki heldur í máli mínu að varpa af mér neinni ábyrgð í því efni. Ég hef verið þingmaður hér í langan tíma og oftar en hitt stutt ríkisstjórn þó ég hafi verið í stjórnarandstöðu á síðasta kjörtímabili.

En varðandi sjóðagjöldin heyri ég að hv. þm. hefur fyrir því viðhorfi sem hann setti hér fram einnig skýra forsendu, þ.e. hann hefur tilgreint það af hverju, ef svo færi með ákveðna þætti sem hann hefur nefnt, þá væri ekki lengur réttlætanlegt að innheimta sjóðagjöldin. Ég hef þá líka kannski örlítið misskilið hans fyrri ræðu um að hann væri ekki að leggja til sem niðurstöðu hvað sem tautaði, að það væri hans viðhorf, að hætta ætti innheimtu sjóðagjalda og leggja þau af og hætta þá líka að hafa lægri vexti til lána í landbúnaði, heldur að það væri, að ákveðnum forsendum gefnum. Og þá held ég að það sé nokkuð leiðrétt sem kann að hafa farið á milli í viðhorfum okkar í umræðum hér áðan eða skilningi mínum á ræðu hans. Ég leyfi mér líka að fullyrða að nokkuð mikið hafi verið úr því gert af öðrum hv. þm. að einhver brestur kynni að vera í samstöðu okkar, hv. þm. Egils Jónssonar og landbrh., um það hvernig beri að halda áfram stefnumótun og úrvinnslu í þessum mikilvæga málaflokki, atvinnugreininni landbúnaði.