Lánasjóður landbúnaðarins

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 12:51:32 (6467)

1997-05-14 12:51:32# 121. lþ. 124.10 fundur 424. mál: #A Lánasjóður landbúnaðarins# frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[12:51]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason) (and\-svar):

Hæstv. forseti. Það kom í sjálfu sér ekkert nýtt fram í þessu andsvari. Ég mótmæli því hins vegar algerlega að við búum við gjaldþrota stefnu. Við eigum vissulega við erfiðleika að etja í þessari atvinnugrein sem stafa af ýmsum þáttum, fyrst og fremst þeim breytingum sem hafa orðið í íslensku þjóðfélagi. Þar á ég t.d. við neyslubreytingar og þau áhrif sem þær hafa haft á landbúnaðinn. En landbúnaðurinn hefur verið að þróast, er að því og heldur áfram að gera það. Ég nefndi áðan og nefni enn breytingar í samkeppni og ég leyfi mér að halda því áfram fram að nauðsynlegt sé að við Íslendingar og íslensk stjórnvöld styðji þessa atvinnugrein eins og gert er annars staðar, eins og gert er hér allt í kringum okkur og að atvinnugreinin hér, þ.e. íslenskur landbúnaður, búi við hliðstæð samkeppnisskilyrði þeim sem eru í löndunum í kringum okkur. Af hverju ætti það ekki að vera? Af hverju ættum við ekki að viðurkenna og sætta okkur við að við þurfum að reka okkar landbúnað og búa að honum með svipuðum formerkjum og aðrar þjóðir gera. Nema menn séu að segja að hér eigi ekki að stunda þessa atvinnugrein. Við séum þar staddir á heimskringlunni að það sé ekki rétt. Því er ég algerlega ósammála. Við vitum a.m.k. að við erum þó þar staddir á heimskringlunni að ekki er hægt að krefjast þess af okkar íslenska landbúnaði að hann geti staðið einn og óstuddur þegar þjóðir sem búa við allt önnur landfræðileg og veðurfarsleg skilyrði og hafa betri möguleika til að reka landbúnað, njóta þó í ríkum mæli opinbers stuðnings.

Og svo einu sinni enn um gjaldþrotin og það sem ég tel mig og núverandi ríkisstjórn vera að gera á sviði þessarar atvinnugreinar, þ. e. að gera ýmsar breytingar sem færa hana og þróa hana í þá átt að hjálpa henni að aðlagast þeim breytingum sem eru að verða í þjóðfélaginu. Atvinnugreinin og stefnan eru alls ekki gjaldþrota fyrir það, heldur hljóta þær að þurfa að taka eðlilegum breytingum sem verða á hverjum tíma.