Reglur Seðlabankans um verðtryggingu

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 16:17:57 (6520)

1997-05-14 16:17:57# 121. lþ. 125.7 fundur 595. mál: #A reglur Seðlabankans um verðtryggingu# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[16:17]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Reglugerð sem gefin var út í júní 1995 um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár felur í sér að bannað verður að verðtryggja innlán frá árinu 2000 en áfram á að vera verðtrygging á útlánum. Með öðrum orðum á að afnema verðtryggingu á sparifé landsmanna en viðhalda henni á útlánum og skuldum heimilanna.

Hæstv. viðskrh. svaraði mér fyrir nokkru síðan um að engin áform væru uppi um það að afnema verðtryggingu á útlánum. Ég hef velt því fyrir mér hvort það standist að með einfaldri reglugerð sé hægt að taka ákvörðun um að banna verðtryggingu á innlánum og hef fengið um það ítarlegt lögfræðiálit sem ég vil vitna í, með leyfi forseta, en þar segir:

,,Þegar Ólafslögum var breytt árið 1989 var Seðlabankanum fengin heimild til að lengja sex mánaða binditíma verðtryggðra fjárskuldbindinga og var í greinargerð þess frv. beinlínis tekið fram að þeirri heimild mætti beita til að draga úr mikilvægi verðtryggingar á lánamarkaði. Ljóst er þó að Seðlabankanum var aldrei heimilt á grundvelli Ólafslaga að afnema verðtryggingu. Undir afnám hefði væntanlega einnig fallið ákvörðun um óvenju langan lágmarksbinditíma.

Þegar verðtryggingarákvæðin voru færð yfir í vaxtalög með lögum nr. 13/1995 datt út hinn almenni áskilnaður laganna um að stefnt skyldi að því að verðtryggja sparifé landsmanna og almenna sjóði. Í greinargerð með frv. var vísað til yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar frá febrúar 1995 um að stefnt skyldi að því að draga úr verðtryggingu í áföngum og tekið fram að viðskrh. mundi í framhaldi af lagasetningunni fara þess á leit að Seðlabankinn legði fram tillögur um lengingu lágmarksbinditíma verðtryggðra innstæðna lána. Þrátt fyrir þetta tel ég [þ.e. lögfræðingurinn sem þetta skrifar] að í V. kafla vaxtalaga felist ekki heimild fyrir Seðlabanka til þess að afnema verðtryggingu alfarið. Af almennum athugasemdum frv. þess sem varð að lögum 1995 má ráða að ekki hafi verið ætlunin að gerbylta ákvæðum Ólafslaga um verðtryggingu heldur fyrst og fremst að færa verðtryggingakafla þeirra laga í nútímalegra horf þar sem fjölmörg ákvæði hans voru orðin úrelt vegna framþróunar á fjármagnsmarkaði.``

Síðan segir, með leyfi forseta: ,,Ef ætlunin er að afnema möguleika manna á að ávaxta sparifé sitt á verðtryggðum innlánsreikningum í bönkum og sparisjóðum landsins er rétt að löggjafinn taki slíka ákvörðun með skýrum hætti rétt eins og hann kom á verðtryggingu á sínum tíma. Því sýnist mér mjög vafasamt ef Seðlabankinn ætlar að óbreyttum lögum að mæla fyrir um afnám verðtryggingar á innstæðum frá og með árinu 2000. Ef núverandi ríkisstjórn hefur það á stefnuskrá sinni að afnema verðtryggingu, samanber fyrrgreinda yfirlýsingu hennar, þá liggur eðlilega beinast fyrir að hún leggi fram stjórnarfrv. þar sem gerð er tillaga um að V. kafli vaxtalaga falli brott.``

Tilvitnun lýkur í þetta lögfræðiálit sem ég hef fengið, og því spyr ég hæstv. viðskrh.:

,,Telur ráðherra að ákvæði 9. gr. reglna Seðlabanka Íslands, nr. 330/1995, um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár o.fl., varðandi afnám verðtryggingar innstæðna samræmist ákvæðum V. kafla vaxtalaga?``