Samningsveð

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 10:42:45 (6567)

1997-05-15 10:42:45# 121. lþ. 127.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., EKG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[10:42]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Við núgildandi aðstæður hafa heljartök banka og lánastofnana á útgerðum, skipum og þar með veiðiréttindum farið vaxandi eins og ég sýndi ótvírætt fram á við 2. umr. þessa máls. Bankarnir sjá alltaf um sig og hafa þegar fundið leiðir til þess að tryggja hagsmuni sína með aðferðum sem eru útgerðinni dýrari en þyrfti að vera og ætti að vera þeim umhugsunarefni sem segjast vilja hafa í heiðri 1. gr. laga um stjórn fiskveiða. Jafnframt liggur fyrir að sú réttarlega óvissa sem ríkir nú hefur valdið erfiðleikum í rekstri hinna minni og veikari útgerða. Slíkt ástand er óviðunandi, skapar ójafnræði í greininni, hinum sterkari í vil en hinum veikari í óhag og mun leiða til meiri valdasamþjöppunar í sjávarútveginum í landinu.

Þessi lagasetning nú mun síður en svo gera það erfiðara að breyta núverandi kerfi fiskveiðistjórnar í landinu skapist til þess pólitískur vilji. Því segi ég já.