Búnaðargjald

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 14:19:20 (6611)

1997-05-15 14:19:20# 121. lþ. 127.5 fundur 478. mál: #A búnaðargjald# (heildarlög) frv., HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[14:19]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta hlýtur að vera flokkssöngur þeirra kratanna að hvítt sé svart og svart sé hvítt. Ég hef aldrei heyrt þetta. Það getur vel verið að þeir syngi þetta þar og að í þeim flokki, Alþfl., rekist eitt á annars horn þegar þeir eru að fjalla um landbúnaðarmálin.

Ég hafði engan fyrirvara um Lánasjóð landbúnaðarins. Ég stend að afgreiðslu þess án fyrirvara. Ég gerði grein fyrir fyrirvara varðandi búnaðargjaldið. Ég hafði hins vegar ekki fyrirvara um að búnaðargjaldið lækki og ég er ánægður með lækkun búnaðargjaldsins og að álögurnar á bændur lækka og kerfið þeirra verður einfaldara, skilvirkara og ódýrara um leið. Það eru stóru málin og því er ég ánægður með búnaðargjaldsfrv.

Ég hef fyrirvara um eitt og annað samt sem áður. Eitt er það t.d. að þessi sparnaður sem næst fram skili sér til bænda. Það er eitt stórt atriði. Ég hins vegar vænti þess að á næstu missirum muni okkur í hv. landbn. takast að vinna þar saman að hagsbótum fyrir bændastéttina og ég vonast til þess að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson standi að góðum málum þar með okkur.