Búnaðargjald

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 14:39:46 (6617)

1997-05-15 14:39:46# 121. lþ. 127.5 fundur 478. mál: #A búnaðargjald# (heildarlög) frv., Frsm. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[14:39]

Frsm. minni hluta landbn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur verið fróðlegt að hlýða á þær umræður sem hafa farið fram, sérstaklega fróðlegt til þess að vita að hv. þm. Egill Jónsson skuli vera kallaður varadekk. Ekki tek ég undir það.

Hins vegar er annað sem ég vildi nefna vegna ræðu hv. þm. Guðna Ágústssonar. Það er að búnaðargjaldið sé borið upp af afurðaverði. Nú er það þannig að í ákveðnum búgreinum er afurðaverðið skráð og búnaðargjaldið leggst á það verð. Það er alveg ljóst að matvælaframleiðendur eru í samkeppni við marga aðra aðila og þegar þarf að hækka verðið sem nemur þessu búnaðargjaldi þá er þetta aðeins til þess fallið að skekkja samkeppnisstöðuna og gera greininni aðeins erfiðara fyrir þannig að að sjálfsögðu kemur þetta niður á greininni sjálfri.

Hitt er að þar sem verð er ekki skráð er alveg ljóst að þetta álag mun alfarið koma niður á launahlut bóndans. Þess vegna finnst mér dálítið ódýrt af hv. formanni landbn. að reyna að sleppa þannig burt frá málinu að það séu neytendur sem greiða þetta og þetta komi á engan hátt niður á launahlut bóndans. Það er einfaldlega ekki rétt og ég vildi aðeins koma þeirri athugasemd á framfæri.