Vegáætlun 1997 og 1998

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 18:03:35 (6661)

1997-05-15 18:03:35# 121. lþ. 127.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997 og 1998# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[18:03]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég trúi ekki öðru en hv. formaður samgn. viti betur og hann átti sig á því að hann er kominn út í orðhengilshátt. Það er algerlega ljóst af öllum þessum ákvæðum vegalaganna, öllun greinunum í V. kafla um vegáætlun og langtímaáætlun, allt frá 18. gr. til og með 28. gr., að það er verið að tala um fjögurra ára vegáætlun og þrisvar sinnum fjögurra ára langtímaáætlun, þ.e. til 12 ára. Það er algerlega ljóst af öllu samhengi orðanna.

Það er líka ljóst að mínu mati að síðasti málsl. 18. gr. þar sem stendur: ,,þannig að ávallt sé fyrir hendi gildandi vegáætlun fyrir a.m.k. tvö ár,`` vísar til þess að þegar rúm tvö ár eru eftir af síðast samþykktri fjögurra ára vegáætlun, þá kemur ný endurskoðun. En hvernig verður málið ef þessi niðurstaða nær fram að ganga? Hvernig verður það í haust eða undir áramót í ár? Þá verður aðeins eitt ár fram undan, árið 1998. Þannig að ef við viljum fara út í þetta, þá stenst þetta ekki einu sinni hjá hv. þm. Ég hef allan tímann og alltaf litið svo á að orðalagið í síðasta málsl. 18. gr. vísaði einmitt með mjög skýrum hætti til þess að um væri að ræða fjögurra ára vegáætlun, skipta í tvö tveggja ára tímabil, þannig að þegar hún kæmi til endurskoðunar á hausti eða fyrripart vetrar, þá lægju næstu tvö ár þar á eftir fyrir. Þannig á að skilja þetta. Það er ekki nokkur leið að lesa öðruvísi út úr þessu.

Varðandi það að nefndin leggi til að breyta fyrirsögn tillögunnar, þá er það alveg hárrétt. Mér hafði yfirsést það við fljótan yfirlestur á tillögunni. Hv. þm. má hafa um það öll þau orð sem hann valdi sér hér, flumbrugang, óðagot og læti. Ég viðurkenni að það er mikið að lesa þessa dagana. Ég sit ekki í samgn. og hafði ekki lesið pappírinn spjaldanna á milli. En ég leyfi mér þó að segja við hv. þm. að ég tel mig hafa bæði þá reynslu og það vit á þessum málum að ég get alveg átt málefnaleg skoðanaskipti við hv. þm. án stóryrða ef hv. þm. treysti sér í þau. En það skyldi nú ekki vera svo að hv. þm. væri kominn út í þennan orðhengilshátt sem hann er í hér og stóryrðaflaum af því að honum sé hið eiginlega efni málsins viðkvæmt umræðuefni.