Vegáætlun 1997 og 1998

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 18:08:19 (6663)

1997-05-15 18:08:19# 121. lþ. 127.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997 og 1998# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[18:08]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það væri út af fyrir sig heppilegra að eyða ekki of mikilli orku í að þrátta um þetta atriði því það er þrátt fyrir allt nánast aukaatriði borið saman við hina efnislegu niðurstöðu, þ.e. þennan mikla niðurskurð á vegafé sem er hér til umræðu.

En í öllu falli er ljóst hvað vinnubrögðin snertir að þessi niðurstaða er uppgjöf og magalending. Það er alveg ljóst. Hv. þm. hefur í raun og veru ekki treyst sér til að færa fram nein umtalsverð rök fyrir þeirri niðurstöðu --- að vinna ekki með eðlilegum hætti að þessari áætlunargerð til eðlilegs tíma.

Ég er reyndar ekki þeirrar skoðunar í sjálfu sér að Alþingi brjóti lög með því að setja lög. Alþingi getur sett lög eins og því sýnist. Það má ekki setja lög sem brjóta í bága við stjórnarskrána nema gera það á réttan hátt, en auðvitað geta ný lög Alþingis upphafið önnur ef út í það er farið. En það er mjög óheppilegt að gildandi lagaákvæði stangist beinlínis á, að ákvarðanir löggjafans séu mótsagnarkenndar og stríði móti hver annarri, en það er það sem hér er að gerast í raun og veru vegna þess að þessi niðurstaða er í mótsögn við ákvæði vegalaganna og stríðir gegn anda þeirra.

Það er líka mjög alvarlegt, að mínu mati, að smátt og smátt í gegnum framgöngu hæstv. ráðherra á þessu sex ára tímabili eru þessi skipulögðu, áætlunarbundnu vinnubrögð í vegamálunum að brotna upp. Það er því miður þannig. Það er allt að glatast sem heitir traust á því að unnið sé samkvæmt samfelldri langtímaáætlun og samþykktri vegáætlun sem staðið sé við vegna þess að hæstv. ráðherra hefur farið út og suður í þessum efnum. Þetta er í raun kórónan á sköpunarverkinu að ætla að ganga frá þessum á þennan hátt. Ég hef margoft sagt og get endurtekið það einu sinni enn að mér finnst það mjög miður vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að mjög farsælt hafi verið hvernig tókst á sínum tíma að hverfa frá því leiða fari, sem vegamálin voru í, að menn slógust og rifust á hverju einasta ári um framkvæmdir, hver í sinn landshluta, yfir í skipulögð vinnubrögð á grundvelli langtímaáætlana af þessu tagi.