Vegáætlun 1997 og 1998

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 18:10:43 (6664)

1997-05-15 18:10:43# 121. lþ. 127.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997 og 1998# þál., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[18:10]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil í fyrsta lagi segja að mér finnst ekkert óeðlilegt þó að hv. þm. lýsi því yfir að hann sé ósáttur við skiptingu vegafjár í Norðurl. e. Ég hef raunar lengi verið þeirrar skoðunar að eðlilegt sé að kjósendur fái að vita ef ágreiningur er uppi um áherslur í vegamálum í kjördæmunum. Ég get ekki annað en látið í ljós sérstaka ánægju yfir því að þessi mál skuli komin upp á borðið og hægt sé þá að ræða þau enn hreinskilnar en gert hefur verið.

Ég vil í annan stað segja að eins og vegalögin liggja fyrir þá er lögð á samgrh. sú skylda að leggja fram till. til þál. um breytingu á vegalögum til fjögurra ára. Það hefur verið gert og því hafa engin lög verið brotin. Það er á hinn bóginn Alþingis að ákveða hvernig sú tillaga er afgreidd. Hér er það tillaga nefndarinnar að þessi ályktun verði afgreidd einungis til tveggja ára en um leið lögð sú skylda á samgrh. að hann leggi nýja vegáætlun fyrir á hausti komanda. Það er Alþingi sjálft sem úrskurðar um þau efni og ef Alþingi samþykkir þessa vegáætlun, þá er það ákvörðun Alþingis og það er ekki hægt að segja að Alþingi brjóti gegn vilja sjálfs sín með sínum samþykktum og sínum afgreiðslum.

Í þriðja lagi vil ég segja að það er ekki rétt hjá hv. þm. að samþykkt hafi verið langtímaáætlun í vegagerð. Ég man ekki til þess. Það hefur aldrei verið gert. En á hinn bóginn hefur komið fram að það hefur þrásinnis valdið miklum misskilningi þegar menn hafa vitnað til slíks plaggs sem ekki er til.

Ég hygg að hv. þm. sé það ljóst að sú tilraun sem síðast var gerð til þess að koma langtímaáætlun frá þinginu á vordögum 1991 mistókst gersamlega og framkvæmd vegamálanna hefur verið með gerólíkum hætti frá því sem þar var lagt til þannig að það er ekki rétt að sú langtímaáætlun hafi verið mótandi um vegagerð síðan.