Vegáætlun 1997 og 1998

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 18:30:23 (6669)

1997-05-15 18:30:23# 121. lþ. 127.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997 og 1998# þál., KHG
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[18:30]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Það hefur verið gerð ítarlega grein fyrir sjónarmiðum stjórnarandstöðunnar í umræðunni af frsm. minni hluta samgn., svo og fyrrv. samgrh. sem báðir hafa farið rækilega yfir þá veikleika sem eru í þessari áætlunargerð af hálfu fulltrúa ríkisstjórnarflokkanna. Það er því óþarft að rekja í smáatriðum það sem þar hefur verið dregið fram sem aðalatriði þessa máls.

Þó get ég ekki látið hjá líða að benda á að ákaflega einkennilegt er í öllu þessu tali um góðærið sem nú ríkir til lands og sjávar og blómstrandi efnahag þjóðarinnar sem er bæði vegna framkvæmda á stóriðjusviðinu, við stóriðjuver og virkjanir á því sviði, svo og ávinning ríkissjóðs af öllum þessum framkvæmdum upp á milljarða króna að óbreyttum tekjustofni og þegar svona vel árar í ríkisbúskapnum og efnahagslífi þjóðarinnar þá ganga yfir ein hin verstu ár í vegamálum hér á landi hvað varðar fjárveitingar til vegamála. Það segir auðvitað sína sögu um pólitískar áherslur í ríkisstjórn flokkanna tveggja, Sjálfstfl. og Framsfl., að þegar þeir hafa fullar hendur fjár að eigin sögn, þá láta þeir niðurskurðarhnífinn bitna hvað harðast á samgöngumálum. Það sjáum við á þeim þrem samgönguáætlunum sem hér eru til umræðu, en engin þeirra fer þó eins illa út úr niðurskurðinum og tillaga til nýrrar vegáætlunar. Hún er svo hraklega skorin niður frá því sem áður hafði verið ákveðið að stjórnarliðum tekst ekki einu sinni að koma sér saman um að styðja áætlunina eftir þennan niðurskurð og grípa því til þess ráðs eftir að hafa staðið í erfiðleikum í sínum röðum með hvernig eigi að ganga frá málinu að afgreiða það einungis til hálfs.

Fyrir þinginu liggur tillaga frá stjórnarflokkunum til síðari umræðu um aðeins hálfa vegáætlun. Það er niðurstaða stjórnarflokkanna í einu mesta góðæri sem gengur yfir íslenska þjóð á lýðveldistímanum, a.m.k. að sögn fjmrh. ríkisstjórnarinnar, að lögð er fram tillaga um hálfa vegáætlun. Það er auðvitað ekki vegna þess að skortur sé á peningum, fjarri því. Farið hefur verið yfir það að tekjur af umferðinni skila ríkissjóði samtals um 18.000 millj. kr. samkvæmt yfirliti sem liggur fyrir um það efni, en aðeins 6.000--7.000 millj. er skilað til þeirra verkefna sem ætlast er til eða um þriðjungur af skattheimtunni. Nei, það er ekki skorturinn á fjármagni sem er ástæðan fyrir því að svona mikið er skorið niður, enda er þetta ekki í fyrsta skipti sem núverandi ríkisstjórn sker niður eigin kosningaloforð í samgöngumálum eða öllu heldur kosningaloforð Sjálfstfl. í samgöngumálum því ekki er rétt að gera Framsfl. ábyrgan fyrir vegáætlun sem samþykkt var fyrir síðustu kosningar. Að minnsta kosti var ekki vitað til þess þá að þeir yrðu komnir inn í ríkisstjórn þó grunur leiki á að eitthvað hafi menn verið byrjaðir að tala saman á þeim tíma. --- Ég minni hæstv. samgrh. á að nefna við hæstv. forsrh. af því að ég sé að hann er í símanum að tala við hæstv. forsrh. og minna hann á að í beinni útsendingu í sjónvarpinu gaf hæstv. forsrh. aðeins eitt kosningaloforð og sagði: Ég ætla bara að gefa eitt kosningaloforð. Það kosningaloforð er miklar framkvæmdir í samgöngumálum.

Samgöngu- og vegáætlunin, sem nýlega var samþykkt, var til sannindamerkis um þau áform. Síðan hefur þessi mikla áætlun Sjálfstfl. verið skorin niður hvert einasta ár, 1995, 1996 og 1997 og spurningin er þessi: Er það vegna áhrifa frá Framsfl. að vegáætlun er skorin svona mikið niður hvert einasta ár? Var það vegna þess að Framsfl. kom að málinu eftir kosningar með þá áherslu að skera niður vegamál? Eða er skýringin sú að forustumenn Sjálfstfl. meintu ekkert af því sem þeir voru að segja og ætluðu aldrei að efna það, hvorki í góðæri né á þrengri tímum og voru bara að hafa þjóðina að fíflum? Hvor skýringin er rétt í þessu efni, herra forseti?

Mér þykir nauðsynlegt að knýja á um svör frá fulltrúum stjórnarflokkanna við þessari spurningu sem landsmenn allir eiga heimtingu á að fá svar við, að vita hvað er hið rétta í málinu. Var það krafa Framsfl. þegar hann gekk til liðs við Sjálfstfl. að mynda ríkisstjórn að skera niður framkvæmdir eigi minna en 20% á ári? Er það alveg sérstök krafa Framsfl. í samgöngumálum? Var það úrslitaatriði af hálfu þess flokks svo að ná mætti saman um ríkisstjórnarsáttmála? Ég tel nauðsynlegt, herra forseti, að fulltrúi Framsfl. gefi skýr svör um þetta atriði svo landsmenn megi vita hverjar áherslur Framsfl. eru í samgöngumálum. Er það stefna hans að draga úr lagfæringum vega um land allt? Eða af því að ég veit ekki hvort það er rétt og er að leita að skýringum og sé í hendi mér tvær sem gætu verið, önnur er sú sem ég hef þegar nefnt, hvort það er afstaða Framsfl. eða hin, afstaða Sjálfstfl., að hann meini ekki það sem hann segi í samgöngumálum. Hann segi bara fyrir kosningar: Við viljum gera vel í samgöngumálum, en svo um leið og búið er að telja upp úr kössunum, þá er það gleymt.

Ég sé ekki, herra forseti, í fljótu bragði fleiri möguleika á skýringum á þessum mikla niðurskurði, ekki bara einu sinni, ekki bara tvisvar heldur þrisvar sinnum í röð um eigi minna en 20%. Og ef eitthvað er, þá er meiri niðurskurður á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu þó ég telji algerlega óþarft að fara í einhvern meting í þeim efnum. En ef eitthvað er, þá er niðurskurður meiri á landsbyggðinni. Og nú verða fulltrúar stjórnarflokkanna að svara skýrt og greinilega í þessum efnum. Er það kannski þess vegna sem skilað er inn aðeins hálfri vegáætlun af því að þeir þora ekki að sýna kjósendum sínum að þeir ætli að halda áfram að skera niður árið 1998, 1999 og 2000?

Það er von, herra forseti, að spurt sé og ríkisstjórnin knúin svara við því: Hvar er góðærið mikla til lands og sjávar? Hvers vegna kemur það ekki í samgöngumálin? Hvers vegna sjáum við það ekki úti á landi?

Herra forseti. Ég vil áður en ég vík að einstökum atriðum áætlunarinnar ljúka þessum almenna kafla í ræðu minni með því að benda á breytingar sem gerðar hafa verið á síðustu árum sem ekki bara draga úr möguleikum eða framkvæmdagetu fyrir það fé sem lagt er til vegamála í heild heldur breyta líka skiptingunni á því fé sem eftir er til framkvæmda þegar annað hefur verið greitt innbyrðis milli einstakra landshluta. Ég vil nefna sem skýrasta dæmið um þetta það ár sem hér er fyrra árið í þessari hálfu vegáætlun hæstv. ríkisstjórnar, árið 1997. Í fyrsta lagi kemur fram að frá því fjármagni, sem á að renna til vegamála samkvæmt fyrri ákvörðunum, á að draga 806 millj. og færa það í ríkissjóð. Í góðærinu mikla eiga vegamálin að borga 806 millj. í ríkissjóð, herra forseti. Það hefur nefnilega verið almenna reglan fram til þessa fremur en hitt að greitt hefur verið úr ríkissjóði til að standa undir vegaframkvæmdum til viðbótar við það sem markaðir tekjustofnar hafa skilað. Núna er sá siður uppi að tekið er af mörkuðum tekjustofnum og greitt í ríkissjóð. Það er svona ríkissjóðsskattur sem þessir ágætu stjórnmálaflokkar hafa fundið upp til þess að sem minnst megi verða úr því ágæta fé sem innheimt er af umferðinni til að standa undir framkvæmdum og viðhaldi í vegamálum --- 806 millj. í ríkissjóð.

Í öðru lagi var fundin upp sú regla fyrir fáeinum árum að taka fé af fjármagni til vegamála til að standa undir ferjuliðnum sem áður var greiddur beint úr ríkissjóði og nemur verulega háum fjárhæðum ár hvert. Á þessu ári, 1997, er gert ráð fyrir að þessi liður verði 450 millj. kr. Það verða engir vegir lagðir fyrir þessa peninga, herra forseti. Það verða engir vegir lagðir fyrir þessar 806 millj. sem lagðar eru inn á ríkissjóð. Það verður ekki gert við neina vegi fyrir þessar 1.256 millj. Nei, þarna hafa verið teknir peningar sem renna í eða styrkja ríkissjóð. Það sem ríkissjóður lagði áður til vegamála er nú aflagt. Nú er það öfugt. Þetta er gríðarleg fjárhæð, 1.256 millj. af því ári þegar horft er til þess að til framkvæmda í vegamálum á árinu 1997 er áætlað um 3.000 millj. kr. samkvæmt þessari tillögugrein sem við erum að ræða. Þessi niðurskurður á tveimur liðum er um 40% af því fé sem ætlað er til framkvæmda. 806 millj. fara í ríkissjóð, 450 millj. greiðast til flóabáta sem ríkissjóður sá áður um að borga. Það sér hver maður, herra forseti, að þetta skerðir framkvæmdagetu þess fjár sem varið er til vegamála mjög mikið. Bara þessir tveir liðir eru um 40% af því fé sem á að verja til framkvæmda á þessu ári og yrði margur maðurinn glaður, herra forseti, ef við hefðum þessar 1.256 millj. til framkvæmda í vegamálum til viðbótar við þær 3.000 millj. sem áætlað er að verði til þeirra verka á þessu ári. Þetta er beinn samdráttur í framkvæmdagetu þess fjár sem rennur til vegamála.

[18:45]

Síðan hefur þeim reglum verið breytt sem menn nota til þess að skipta fénu á einstök verkefni. Menn hafa lagt til grundvallar ástand vegakerfisins í miklu ríkara mæli en gert er í þeim reglum sem stuðst er við núna og eru notaðar til að deila út fénu. Það þýðir að þær breytingar sem menn gerðu, þ.e. að miða að hluta til við höfðatölu, sem er alger nýjung, urðu til að draga úr fjármagni til framkvæmda í strjálbýlu héruðunum, færa féð til þéttbýlli svæðanna á höfuðborgarsvæðinu og í Eyjafirði. Það var breyting á skiptireglum fjármagnsins, strjálbýlinu í óhag og þéttbýlinu í hag. Ég er ekki að tala um það á þeim forsendum að ég telji að einhver vanþörf sé á fé til framkvæmda á þeim svæðum sem bættu hlut sinn með þessari breytingu, fjarri því, heldur hitt að þegar þau eru að skipta á knöppum hlut munar mikið um það sem af mönnum er tekið með þessari breytingu og ekki hvað síst vegna þess að strjálbýlustu héruðin, Vestfirðir, Austurland og austanvert Norðurland eystra, eru þau svæði landsins þar sem vegirnir eru lengstir, þar sem eru flestir kílómetrar af stofnbrautum og það svæði þar sem ástand þeirra vega er verst á landinu. Allar tölur sem tiltækar eru sýna að þessi landsvæði búa við hvað lökustu vegi og auðvitað eiga menn að verja fé til vegamála eftir þörf, eftir ástandi vega, í ríkari mæli en gert er við núverandi skiptireglur.

Þetta var ein breytingin sem gerð var fyrir fáeinum árum til að draga úr hlut dreifbýlisins og styrkja hlut þéttbýlisins á kostnað dreifbýlisins. Það var ekki hægt að auka fjármagn þannig að bæta við fé til þéttbýlisins en láta það standa ábreytt til strjálbýlisins. Nei, það þurfti alveg sérstaklega að útbúa reglu til að andskotast, herra forseti, með leyfi þínu, á dreifbýlinu. Þetta er ótrúlegur gjörningur hjá þessum tveimur flokkum.

Nú er ég ekkert sérstaklega að rifja það upp að þriðji flokkurinn kom að þessu verki á sínum tíma. (Gripið fram í: Hvaða flokkur var það?) Það er flokkur sem (Gripið fram í: Á að fara að sameinast?) heitir Alþýðuflokkurinn --- jafnaðarmannaflokkur Íslands. Ég man ekki betur, herra forseti, en sá flokkur hafi lagt nokkuð af mörkum í þessari breyttu skiptireglu en við í stjórnarandstöðunni erum ekkert sérstaklega á þessum tímum að halda því mjög á lofti sem liðið er fyrir nokkru síðan í þessum efnum.

Þá vil ég nefna annað atriði sem vegur líka að stöðu dreifbýlisins þegar skipta á hinu takmarkaða fé og það er svokallað framkvæmdaátak. Í þeirri tillögu sem við erum að ræða fyrir árið 1997 á að draga 350 millj. út úr vegafénu þannig að því verði ekki lengur skipt eftir almennum skiptireglum og það fært í sérstakan pott og því er skipt allt öðruvísi og heitir framkvæmdaátak. Því er þannig skipt, herra forseti, að megnið af því fé eða við skulum kannski hafa það á hinn veginn að sáralítið af því fé rennur til brýnna verkefna í dreifðum byggðum landsins, sáralítið og mun minna en hefði verið ef því hefði verið skipt eftir almennum skiptireglum.

Ég vil nefna sem dæmi, herra forseti, og bið ég nú formann samgn., hv. 1. þm. Vestf. að taka eftir, að af 650 millj. kr. á þessu ári í framkvæmdaátak, rennur hvað mikið til Vestfjarða? 28 millj. 4%. Ég verð að segja, herra forseti, að það verður ekki borið á formann samgn. að hann dragi óeðlilega mikið hlut Vestfirðinga í störfum sínum. 4% af framkvæmdaátakinu rennur til Vestfjarða, 4%. (Samgrh.: Var ekki Djúpveginum breytt í stórverkefni um leið og framkvæmdaátakið var ákveðið, svona rétt að telja það með?) Ég heyri að hæstv. samgrh. er orðinn órólegur. (Samgrh.: Nei, ég vil bara að málið sé rétt lagt fyrir.) Nákvæmlega rétt lagt fyrir, herra forseti, úr þingskjölum meiri hluta samgn. 650 millj. kr. í framkvæmdaátak til sérstakra verkefna sem er meira og minna ráðstafað af ríkisstjórninni eru aðeins 28 millj. til Vestfjarðakjördæmis, því miður. Tölurnar tala sínu máli í þessum efnum.

Herra forseti. Ég hef farið nokkuð ítarlega yfir almennar forsendur vegáætlunar og þær breytingar sem gerðar hafa verið á undanförnum árum, bæði í fjárveitingum til vegamála almennt, niðurskurð á því fé sem rennur til framkvæmda og breyttum reglum sem auk almenns niðurskurðar ganga enn frekar á hlut strjálbýlisins en almennur niðurskurður gefur tilefni til. Allt þetta samanlagt, herra forseti, hefur þau áhrif að það miðar fjarri því í uppbyggingu vegakerfisins á landinu sem skyldi og fjarri því að því sé skipt eðlilega.

Um þessar framkvæmdir getur aldrei orðið sátt í landinu. Það getur aldrei orðið sátt um að ganga svona freklega á hlut landsbyggðarinnar í skiptingu vegafjár og aldrei orðið sátt um að verja svo litlu fé til vegamála í landinu í heild því sannarlega er þörf á miklum framkvæmdum hér á höfuðborgarsvæðinu sem og landsbyggðinni. Á það dreg ég enga dul og dreg ekki úr mönnum að halda vöku sinni í þeim efnum. En það má bara ekki vera þannig að menn auki hlut á einu svæði á kostnað annars þar sem ástandið er jafnvel enn verra en þar sem breytingin er til batnaðar. Það eru ekki eðlileg vinnubrögð að standa þannig að málum.

Herra forseti. Ég vík fáeinum orðum að áhrifum þessara breytinga á vegaframkvæmdir á Vestfjörðum. Það er óneitanlega þannig að ákaflega erfitt er að skipta því takmarkaða fé sem er til framkvæmda í vegamálum á Vestfjörðum. Það hefur verið erfitt á undanförnum árum að deila því þannig að sem flestir gætu unað sæmilega sáttir við skiptinguna og ekki síður við þær framkvæmdir sem væru í gangi hverju sinni og framkvæmdahraðinn væri viðunandi en enn verra verður það þegar skera á niður frá því sem takmarkað var fyrir.

Í tillögu þessari sem fyrir liggur hjá okkur nú er gerð sú breyting á gildandi áætlun fyrir árin 1997 og 1998 að skert er framlag til stofnvega, bæði almennra verkefna og stórverkefna samtals um 105 millj. kr. í Vestfjarðakjördæmi. Það hlýtur að teljast mikill niðurskurður á tímum góðærisins sem mjög hefur verið talað um sem skilar svo miklum peningum að ríkissjóður er aflögufær og getur lækkað almenna skatta um milljarða kr. á ári, þá er skorið niður af því sem lítið var fyrir um 105 millj. samtals á þessum tveimur árum.

Niðurskurðurinn bitnar helst á tveimur verkefnum, þ.e. við Gilsfjarðarbrú og í Djúpvegi. Það verður að segjast alveg eins og er að verkefnið Djúpvegur hefur farið ákaflega illa af stað þrátt fyrir góð fyrirheit, góð áform og ágæta tillögu ráðherrans á sínum tíma sem ég studdi einarðlega og hef stutt alla tíð, hef hvergi hvikað í þeim efnum né snúist eins og skopparakringla í afstöðu, þá hafa efndirnar verið mun minni en efni stóðu til og menn ætluðu.

Í Djúpveginn verður aðeins á þessum tveimur árum lagt út í tvö lítil verkefni, 8 km kafla í framhaldi af þeim sem unninn var á síðustu tveimur árum og svo þegar hann er búinn verður tekinn 5 km kafli eða samtals 13 km nýbygging á tveimur árum á kafla sem er um 125 km langur. Það er ekki stórvirki og er varla hægt að kalla það stórverkefni þó þetta séu góðir áfangar á sína vísu og leysi af hólmi vonda vegi, þá er þetta ekki mikill gangur, herra forseti og verður ekki sagt að hratt miði í því að koma norðanverðum Vestfjörðum í gott vegasamband við aðalakvegakerfi landsins eins og stefnan er og ég veit ekki annað en ríkisstjórnin sé enn þá með þá stefnu uppi.

Hins vegar, herra forseti tel ég rétt að geta þess sem einnig horfir til bóta sem eru fjárveitingar til vegamála í Barðastrandarsýslu. Þar er aukið verulega við eða um 60 millj. kr. á þessu ári eða næsta samtals. Það kemur sér vel og hraðar endurbyggingu vegar inn Barðaströnd frá Patreksfirði þó svo að þrátt fyrir þessar fjárveitingar sé töluvert mikið eftir enn og sjái ekki alveg til lands í þeim efnum, a.m.k. ekki miðað við óbreytta stefnu í vegamálum af hálfu stjórnarflokkanna.

[19:00]

Þá er gert ráð fyrir því, herra forseti, að verja nokkru fé til að lagfæra mjög slæma vegarkafla sem eru á Vestfjörðum og þjóðin öll hefur fengið að heyra um. Það er samdóma álit margra ef ekki allra sem um þessa vegi fara og þekkja vegakerfið að öðru leyti um landið að það er víst ekki hægt að neita því að hvergi eru fleiri vondir vegarkaflar en einmitt í þessu kjördæmi. Það hefði verið verðugt verkefni fyrir stjórnarflokkana, sérstaklega þar sem menn búa um þessar mundir við mikið góðæri sem skilar sér í auknum tekjum í ríkissjóð umfram það sem áður var ætlað, að verja þó ekki væri nema örlitlu meira fé til þess að gera við þessa vondu vegi, þessa verstu kafla á landinu. Menn hefðu alveg þolað það á Vestfjörðum að fá nokkra aura til þeirra verkefna. En af því takmarkaða fé sem er til framkvæmda á Vestfjörðum hefur verið ákveðið að verja nokkrum fjármunum til þess að lagfæra allra verstu kaflana á þessu ári og vonandi verður haldið áfram í þeim efnum á næstu árum þar á eftir, á næsta ári og síðar þangað til þeir eru allir frá. En þetta er auðvitað einungis lagfæring á vondum vegum. Það er ekki hægt að kalla þetta nýbyggingu. Það verður eftir enn að afla fjár til að gera þá vegi eins góða og almennt er talið nauðsynlegt. En á þessu ári verður varið umtalsverðu fé til þess að lagfæra veginn yfir Dynjandisheiði, alveg austur frá að sýslumörkum og þaðan síðan að Mosdalsvegi.

Þá er áformað að halda áfram lagfæringu á veginum yfir Eyrarfjall í Ísafjarðardjúpi og reynt að klára verstu kaflana þar þannig að eftir þetta sumar getum við sagt með nokkurri vissu og trúi ég því a.m.k. sjálfur að sá vegur sé alveg sæmilega akfær, herra forseti. Það verður að segjast eins og er að sá vegur er mjög gamall og frumstæður og varla að hann standi undir því nafni að vera hluti af þjóðvegi 61. En eftir þær endurbætur sem áformaðar eru á honum í sumar hygg ég að við megum segja að hann verði orðinn bærilega akfær.

Fyrir utan þessa kafla eru nokkrir enn, einkum í Austur-Barðastrandarsýslu, sem þarf að ráðast í og veit ég að fullur hugur er hjá þingmönnum kjördæmisins til þess að vinna að því að endurbyggja þá á næstu 2--3 árum. Menn vildu auðvitað geta unnið þetta fyrr og hraðar en til þess að svo megi verða verður að vera meira fé til vegamála. Á meðan fjármagnið er svona lítið geta menn ekki gert brýnustu úrbætur sem þyrfti að ráðast í. Það er alveg kristaltært, herra forseti, að slík frestun á brýnustu viðgerðum á vondum vegum á Vestfjörðum er algerlega á ábyrgð ríkisstjórnarinnar, herra forseti, sem sést best á því að stjórnarflokkarnir hafa náð saman um það að lokum eftir mikla erfiðleika í sínum röðum að skerða fé til stofnvega á Vestfjörðum um 105 millj. Stofnvegir á Vestfjörðum verða ekki endurbættir fyrir það fé, herra forseti, sem á að skera niður að þessu sinni.

Ég fagna því hins vegar sem fram kom í máli framsögumanns að það er fullur hugur í stjórnarliðinu til þess að hefja rannsóknir á vegstæði til að tengja saman norður- og suðurhluta Vestfjarða. Það er verkefni sem mjög er knúið á um og þótt allir geri sér grein fyrir því að ekki verði ráðist í það verkefni á næstu árum þarf að rannsaka leiðirnar þannig að sem fyrst geti menn gert það upp við sig hvaða leiðir menn vilja fara. Það er forsendan fyrir því að þingmenn kjördæmisins geti síðan hafið vinnu að því að afla stuðnings annarra þingmanna við framkvæmdir til að tengja saman þessa tvo fjölmennustu hluta Vestfjarðakjördæmis.

Fleira mætti nefna, herra forseti, svo sem það sem er á jákvæðu nótunum, svo ég ljúki nú máli mínu á þann hátt, að á þessu ári hafa verið teknar ákvarðanir um vegalagningu á tveimur stöðum sem mikilvægt var að afgreiða til þess að tryggja snurðulausan framgang vegaframkvæmda á þeim stöðum. Það er annars vegar á kafla inni í Ísafjarðardjúpi um Vatnsfjörð og Mjóafjörð og hins vegar endurbyggingu vegar um Barðaströnd frá Krossi og inn fyrir Múla. Þingmannahópurinn hefur afgreitt frá sér og samþykkt tillögur Vegagerðarinnar um hvernig vegurinn á að liggja á þessum tveimur stöðum og er óþarft að rekja það hér því að það hefur verið tíundað rækilega áður.

Í þriðja lagi er beðið tillagna Vegagerðarinnar um vegstæði í Strandasýslu um Kollafjörð og yfir Ennisháls og eru tillögur Vegagerðarinnar boðaðar núna síðar á þessu vori þannig að væntanlega verður hægt að taka ákvörðun um það við endurskoðun vegáætlunar á næsta þingvetri, leiðaval í þeim efnum, og ef ríkisstjórnin hefur hresst eitthvað frá því sem nú er verða vonandi einhverjir fjármunir til að hrinda af stað framkvæmdum á því svæði.

Ég vil að lokum segja, herra forseti, að það er kannski lýsandi dæmi um stöðu Vestfjarðakjördæmis í vegamálum að verkefnin eru svo stór og svo dýr að það er borin von að kjördæmi geti þokað þeim helstu áfram með þeim tekjum sem það hefur eða sínum hluta af vegafénu. Því hefur það orðið niðurstaða þingsins að það hefði orðið að hlaupa undir bagga með fjárframlögum úr almennum stórverkefnasjóði. Þrjú verkefni á Vestfjörðum falla undir stórverkefnasjóð, jarðgöngin sem lokið er við, Gilsfjarðarbrúin og í þriðja lagi Ísafjarðardjúp. Það gerir auðvitað mögulegt að þoka málum áfram að fá fjármagn eftir þessum leiðum því að annars væri ástandið enn skelfilegra. Við verðum einfaldlega að viðurkenna að það er slæmt og það er slæmt, herra forseti, í þessum þrengingum að ekki skuli hafa verið fallist á það af hálfu ríkisstjórnarinnar að 300 millj. kr. skuldin, sem eftir er að greiða vegna Vestfjarðaganganna, skuli ekki fást greidd á lengri tíma en þeim tveimur árum sem áætlunin nær til. Það hefði linað svolítið erfiðleikana ef hægt hefði verið að dreifa þessum kostnaði á lengri tíma eins og 4, 5 eða 6 ár. Þá hefði verið hægt að halda uppi sæmilegum framkvæmdahraða á þeim sama tíma í stað þess að vera algerlega skornir niður við trog þau ár sem nú er eftir til að greiða niður þessa skuld og bætast við hin árin fjögur sem framkvæmdir við göngin stóðu yfir og kjördæmin urðu að greiða sinn hlut í þeim af takmörkuðum fjárveitingum til sín og þá varð svo lítið eftir til annarra almennra framkvæmda. Óánægjan sem er mjög víða í kjördæminu um vegamál er ekki hvað síst sprottin af því hversu hægt hefur miðað í almennum vegaframkvæmdum á þeim tíma sem framkvæmdir við göngin hafa staðið yfir. Það var óráðlegt að mínu viti að ætlast til þess að kjördæmin greiddu sinn hluta á þeim skamma tíma sem framkvæmdin stóð yfir. Hefði þurft að hafa a.m.k. tvöfaldan þann tíma til þess að greiða sinn hlut og ég minni á að í gildi er sérstök þál. sem samþykkt var vorið 1990 sem heimilar einmitt ríkisstjórninni að taka lán til að standa undir hlut kjördæmisins að hluta til á framkvæmdatímanum þannig að kjördæmin gætu greitt hlut sinn á 8--12 árum og vaxtakostnaðurinn af því láni sem ríkissjóður tæki þannig yrði greiddur af ríkissjóði og færður sem byggðaframlag. En núverandi ríkisstjórn og sú síðasta á undan henni hafa því miður kosið að nýta sér ekki þessa samþykkt Alþingis frá 1990.

Herra forseti. Ég held að ég fjölyrði ekki meira um vegamál í þessari atrennu. Það er sjálfsagt að bæta við síðar í umræðunni ef sérstaklega er óskað eftir.