Álbræðsla á Grundartanga

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 16:52:08 (6732)

1997-05-16 16:52:08# 121. lþ. 128.2 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., KH
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[16:52]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Andsvörum er að sjálfsögðu lokið en ég get ekki sillt mig um að taka aðeins upp þráðinn. Ég vona að hv. þm. hafi ekki haldið að ég væri að leggja til að farið væri með hervaldi gegn álverinu í Straumsvík en ég get hins vegar alveg viðurkennt að það gæti alveg hvarflað að einhverjum. (ÓÞÞ: Var það ekki álverið á Grundartanga?) Grundartanga. Afsakið, ég þakka hv. þm. fyrir leiðréttinguna.

Ýmislegt getur hvarflað að mönnum þegar þeir skynja sig ofbeldi beitta og læt ég þá þessu viðbragði við orðum hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar lokið.

Herra forseti. Kannski má segja að tími hinna löngu ræðna í þessu máli gæti verið á enda, a.m.k. að því er mig varðar. Hér hefur flest verið sagt sem segja þarf en ég vil komast að með nokkur orð engu að síður.

Hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir getur því miður af persónulegum ástæðum ekki verið viðstödd umræðuna hér í dag en hún hefur setið fundi hv. iðnn. og fylgst með málinu þar sem áheyrnaraðili. Hún er sammála nefndaráliti minni hlutans sem þegar hefur verið mælt fyrir og ég tek undir það álit í einu og öllu. Ég þarf ekki út af fyrir sig að lýsa því í langri ræðu að við erum andvígar þessu máli og höfum unnið ötullega í því alveg frá upphafi og reynt eftir megni að vinna því það gagn sem við höfum mátt. Við gerðum ítarlegar athugasemdir við umhverfismatið þegar það kom fram fyrir rúmu ári að tilhlutan og frumkvæði Markaðsskrifstofu iðnrn. og Landsvirkjunar. Við gerðum líka ítarlegar athugasemdir við tillögu Hollustuverndar að starfsleyfi fyrir nokkrum mánuðum og við bentum þá á fjölmörg atriði sem betur mættu fara. Við lögðum t.d. sérstaka áherslu á verndun vatnsbóla sem er vissulega hætta búin vegna mengunar af völdum verksmiðjureksturs á Grundartanga og við höfum að sjálfsögðu lagt mikla áherslu á nauðsyn vothreinsibúnaðar sem draga mundi verulega úr mengun brennisteinstvíoxíðs og flúoríðs.

Við getum út af fyrir sig ekki bent á mikinn sýnilegan árangur af baráttu okkar né annarra sem eru sama sinnis og hafa lagt á sig gífurlega mikið starf, varið miklum tíma og orku í málið. Þó hefur orðið árangur og að mínu mati mikill árangur.

Ég er sannfærð um að allt það andóf og athugasemdir sem fram hafa komið í vaxandi mæli í þessum efnum hafi mikil áhrif til framtíðar.

Eins og ég lýsti í útvarpsumræðum á miðvikudagskvöld tel ég að nokkur vatnaskil hafi orðið í almennum umræðum um atvinnumál í landinu og áhrif þeirra á náttúru og umhverfi. Ég held að öll sú umfjöllun sem orðið hefur um þetta mál eigi eftir að skila sér í ákveðinni stefnubreytingu og hún hefur raunar þegar gert það. Þar á ég t.d. við Samtökin óspillt land í Hvalfirði sem hafa háð athyglisverða og aðdáunarverða baráttu fyrir verndun umhverfisins þar upp frá. Það er að vísu útlit fyrir að þessi verksmiðja sem samtökin og fleiri hafa barist gegn rísi enda gátu framkvæmdaraðilar ekki einu sinni beðið eftir afgreiðslu þess frv. sem er til umræðu né heldur eftir því að gengið hefði verið frá fjármögnun þessa verkefnis heldur eru framkvæmdir þegar hafnar og að því er ég best veit eru jarðvegsframkvæmdir vel á veg komnar og e.t.v. meira en það. Svo mikið lá á að ekki var hægt að bíða enda voru menn harla vissir um sinn hag með stefnufestu hæstv. iðnrh. og velvilja hæstv. umhvrh. að leiðarljósi.

Það er nú svo að sá þáttur þessa máls mun vera liður í því að hjálpa til við samninga um fjármögnun þessa verks í því að sannfæra hugsanlega fjárfesta eða fjármögnunaraðila um það að stjórnvöldum sé fyllsta alvara og þau standi heils hugar að málinu. Allt er þetta með ólíkindum og ekki til eftirbreytni hvernig staðið hefur verið að verki. Það sem hefur knúið menn áfram og blindað sýn þeirra til annarra átta hefur verið þessi einstrengingslegi vilji til að fjölga stóriðjuverum í landinu og mætti kannski afgreiða á sama hátt og gert var í frægri ræðu fyrir nokkrum árum á Alþingi, þeirri stystu sem ég trúi að haldin hafi verið þegar þáv. hv. þm. Ásgeir Hannes Eiríksson fór í ræðustól og mælti aðeins tvö orð: ,,Álverið rísi.`` Ef þingmenn væru almennt jafngagnorðir mundi það vitaskuld einfalda alla umræðu en hætt er við að þá svifu í gegnum þingið æðimörg slysastykkin að óathuguðu máli.

En hvað um það. Menn kunna að velta því fyrir sér hvers vegna menn eru yfirleitt að leggja á sig alla þessa baráttu gegn þeirri stóriðjustefnu sem hefur verið alfa og omega stjórnvalda um langt skeið og er enn, baráttu sem hefur lengi virst harla vonlaus en er þó nú öllu vænlegri og líklegri til árangurs.

[17:00]

Ég held að ástæða sé til að minna á og ítreka þau rök sem komið hafa fram í þessu máli og öðrum skyldum. Við kvennalistakonur bendum fyrst og fremst á umhverfisspjöllin sem slíkri atvinnustarfsemi fylgja. Við bendum á sjónmengun og landspjöll og í því sambandi megum við ekki gleyma gríðarlegum umhverfisáhrifum vegna nauðsynlegra virkjana í tengslum við stóriðju, umhverfisáhrifum sem verða ekki aftur tekin.

Við bendum líka á neikvæð áhrif stóriðju á þá ímynd hreins og ómengaðs umhverfis sem margvísleg önnur atvinnustarfsemi byggir tilveru sína á fyrst og fremst, svo sem lífræn ræktun og matvælavinnsla af ýmsu tagi. Við getum nefnt vatnsútflutning sem er líklegt að verði umtalsverður í framtíðinni þótt sú grein hafi reyndar mætt ýmsum erfiðleikum sem ég hef trú á að verði yfirstignir en ekki síst ef við berum gæfu til að treysta og styrkja þá ímynd sem öðru fremur getur selt frábært drykkjarvatn okkar. Ekki má gleyma ferðaþjónustunni sem þegar skilar okkur umtalsverðum tekjum, meiri tekjum en stóriðjan. En stóriðjustefnan setur þessa ímynd í hættu og ég vil enn vara við þeim málflutningi sem talsmenn stóriðju hafa haldið að landsmönnum að við stöndum frammi fyrir aðeins tveimur kostum í styrkingu efnahags- og atvinnulífs í landinu, þ.e. annars vegar stóriðju og hins vegar atvinnuleysi, annars vegar milljarðatekjum og hins vegar engum tekjum inn í þjóðarbúið, annars vegar hagvexti og framförum og hins vegar stöðnun eða jafnvel afturför. Þannig er þetta auðvitað ekki heldur eigum við margvíslega aðra möguleika sem fyrst og fremst felast í virkjun hugvits og þekkingar, studdri menntun og rannsóknum, svo og í ímynd hreinleikans sem aðrar þjóðir líta öfundaraugum vegna þess að þær hafa fyrirgert þeim möguleikum. Við eigum að nýta okkur þá kosti.

Mengun lofts og umhverfis af völdum stóriðjureksturs er hættuleg þeirri ímynd og grefur undan þeim möguleikum sem í henni felast. Ég ætla ekki að fara ítarlega í þær skuldbindingar sem okkur ber að axla vegna alþjóðlegra samninga, m.a. um loftslagsbreytingar. Í það hefur þegar verið farið og raunar margsinnis. En við bendum líka á óæskilega þenslu á vinnumarkaði vegna framkvæmda við virkjanir og byggingu verksmiðjunnar og við erum auðvitað ekki andvígar því að hjól atvinnulífsins snúist. Það erum við ekki og þensla er ekki endilega af hinu vonda, a.m.k. ekki þensla sem hæfilegur vöxtur í atvinnulífinu veldur. Það hættulega við þá þenslu sem skapast vegna byggingar stóriðjuverksmiðju og virkjana er sú mikla tímabundna og staðbundna þensla og röskun sem henni fylgir enda hafa þessi áform og uppbygging á Grundartanga þegar að meðtöldum þeim framkvæmdum sem hafa verið í gangi í Straumsvík og allar meðfylgjandi framkvæmdir við virkjanir á hálendinu o.s.frv. haft óæskileg áhrif nú þegar, sem sagt dregið úr bjartsýni og uppbyggingu utan þessa svæðis.

Öðru megum við ekki gleyma og það eru þær hömlur sem í tengslum við þetta eru settar á bráðnauðsynlegar framkvæmdir á suðvesturhorninu. Hér er tilskipunin sú að setja hömlur á framkvæmdir í vegagerð, hafnargerð, bráðnauðsynlegar endurbætur á Reykjavíkurflugvelli sem er ekki síður byggðamál, jafnvel á skólabyggingar. Við höfum m.a. miklar áhyggjur af þessum áhrifum og hefðum einmitt talið farsælla að stuðla að eflingu atvinnu sem dreifist meira um landið en setur það ekki upp á annan endann ef svo má að orði komast.

Þá leggjum við áherslu á afleita staðsetningu álversins á Grundartanga í Hvalfirði. Rökin fyrir því eru auðvitað hin sömu og gegn stóriðju yfirleitt en því til viðbótar að ef niðurstaðan er að setja niður stóriðjuver er fáránlegt að velja því þennan stað. Þeir eru margir sem eru sama sinnis og telja ýmsa aðra staði koma til greina þar sem minni skaði er líklegur af sjónmengun og öðrum áhrifum á mannlíf og aðra atvinnustarfsemi. Í þessum hópi eru sennilega flestir heimamanna sem ég vil kalla heimamenn jafnvel þó margir þeir búi öndvert við þann stað sem um ræðir og reyndar eru þeir margir aðrir sem hafa látið til sín taka sem ég er ekki einu sinni viss um að sæju verksmiðjuna eftir að hún er komin upp en eru þó í nágrenni þessa staðar. Ég verð að segja að ég finn sárt til með þeim nú þegar allt útlit er fyrir að orrustan sé töpuð og ég get rétt ímyndað mér að þeim líði eins og þeim sem beittir eru grófu ofbeldi. Þannig mun þeim líða hvern þann dag sem þeir verða að horfa upp á framkvæmdir hinum megin fjarðarins. Þeir hafa barist hetjulega en þótt þessi orrusta virðist nú töpuð er baráttan ekki á enda og þeir hafa náð árangri. Ekki bara þeim árangri sem birtist í því samkomulagi sem rétt er að fagna, samkomulagi um rannsóknir og eftirlit eða aðild að rannsóknum og eftirliti sem undirritað var í morgun --- og nú veit ég auðvitað ekki almennilega um hvað ég er að tala þar sem ég hef aðeins óljósar fregnir af þessu, heldur fyrst og fremst þeirri vakningu sem orðið hefur og þeim vatnaskilum sem orðið hafa í umræðunum um umhverfismál í tengslum við atvinnustarfsemi í landinu. Árangurinn er ekki enn mjög sýnilegur, hann er ekki skjalfastur. En ég trúi því að öll sú umræða sem orðið hefur muni skila sér í betri vinnubrögðum við álíka aðstæður í framtíðinni og hafi skilað sér í auknum skilningi á þeim verðmætum sem um er að ræða og muni skila sér í meiri ábyrgð gagnvart þessum verðmætum. Þessi umræða á og verður að halda áfram.

Herra forseti. Ég er andvíg málinu en ég hef nú lokið máli mínu.