Tilkynningarskylda olíuskipa

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 20:32:35 (6753)

1997-05-16 20:32:35# 121. lþ. 128.8 fundur 303. mál: #A tilkynningarskylda olíuskipa# þál., Frsm. EKG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[20:32]

Frsm. samgn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti á þskj. 1161 um till. til þál. um tilkynningarskyldu olíuskipa og annarra skipa sem sigla með hættulegan varning.

Samgn. hefur fjallað um málið og farið yfir umsagnir sem bárust um það á 120. þingi þegar málið var fyrst flutt.

Nefndin leggur til að ríkisstjórninni verði falið í samráði við hagsmunaaðila, m.a. Siglingastofnun Íslands, olíufélög og skipafélög, að móta skýrar reglur um tilkynningarskyldu olíuskipa og annarra skipa sem sigla með hættulegan varning. Þá verði fellt brott ákvæði tillögunnar um að sett verði skýr ákvæði er banna öllum skipum losun á ,,ballest`` nema í ákveðinni tiltekinni fjarlægð frá landi (eða á ákveðnu dýpi). Með hliðsjón af upplýsingum sem fram hafa komið, m.a. frá Siglingastofnun Íslands, er ekki talin nauðsyn á sérstökum ákvæðum hér á landi um bann við losun á sjókjölfestu, ,,ballest`` umfram ákvæði svokallaðra MARPOL-samþykktar sem Ísland er skuldbundið til að framfylgja.

Nefndin mælir því með samþykkt tillögunnar með svohljóðandi breytingu:

,,Tillgr. orðist svo:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni, í samráði við hagsmunaaðila, að móta skýrar reglur um tilkynningarskyldu og afmörkun siglingaleiða olíuskipa og annarra skipa sem sigla með hættulegan varning inn í íslenska efnahagslögsögu sem m.a. innihaldi heimildir til tafarlausrar stöðvunar ef vart verður mengunar. Reglurnar nái einnig til olíuskipa í siglingum milli hafna hér á landi.

Jafnframt verði mótaðar reglur um hvaða ráðuneyti og stjórnvöld fari með forræði um allar aðgerðir sem grípa þarf til ef mengunarslys verða á sjó eða við strendur landsins.

Kristín Halldórsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.

Kristján Pálsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.``

Undir nefndarálitið skrifa auk frsm. hv. þm. Magnús Stefánsson, Egill Jónsson, Stefán Guðmundsson, Ragnar Arnalds, Árni Johnsen, Guðmundur Árni Stefánsson og Ásta R. Jóhannesdóttir.