Sérákvæði laga er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 21:11:48 (6764)

1997-05-16 21:11:48# 121. lþ. 128.26 fundur 189. mál: #A sérákvæði laga er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# frv., Frsm. meiri hluta VE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[21:11]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frhnál. og brtt. við frv. til laga um breytingar á sérákvæðum í lögum er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Efh.- og viðskn. tók þetta mál til umfjöllunar milli umræðna og leggur til nokkrar breytingar á frv. eins og það stendur nú eftir 2. umr. málsins.

1.--3. liðir brtt. eru um brottfall greina og breytta röð.

Í 4. lið brtt. er lögð til breyting á 67. gr. þannig að hún orðist svo:

,,Í stað 1. og 2. mgr. 3. gr. laganna kemur nýr málsgrein, svohljóðandi:

Ráðherra skipar forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins til fimm ára í senn og ræður tryggingayfirlækni, hvorn um sig að fengnum tillögum tryggingaráðs. Forstjóri ræður aðra starfsmenn.``

Breytingin er fyrst og fremst sú að tryggja það að forstjóri ráði alla undirmenn sína nema tryggingayfirlækni og tryggingayfirlæknir sé ráðinn en ekki skipaður og hann sé ráðinn ótímabundinni ráðningu.

Í 5. lið brtt. er lagt til að 71. gr. falli brott. Þarna var verið að fjalla um breytingu á lögum um vörumerki en Alþingi hefur nýlega sett ný heildarlög um vörumerki.

Í 6.--7. liðum brtt. er lagt til að greinar í frv. sem snerta þjóðminjalög falli brott og það er að sjálfsögðu vegna þess að búið er að setja ný lög um þjóðminjar.

Í 8. lið brtt. er lagt til að ákvæði sem snerta Lánasjóð ísl. námsmanna verði fellt brott en menntmn. hefur afgreitt til 2. umr. frv. til laga um breytingu á þeim lögum og sú umræða fór fram í dag þar sem tekið er á þessu máli.

Í 9. lið brtt. er sams konar breyting vegna skipulagslaga, en frv. til breytinga á þeim er komið núna til 3. umr.

Í 10. lið brtt. er lagt til að ákvæði í lögum um Landmælingar Íslands verði felld brott, en lög um Landmælingar Íslands voru samþykkt á þinginu 13. maí.

Í 11. lið er lagt til að gera breytingar á lögum um náttúruvernd í samræmi við aðrar breytingar sem hafa verið gerðar á frv. en láðist að taka með við 2. umr. málsins.

Í 12. lið brtt. er lögð til sú breyting á lögum um utanríkisþjónustu Íslands að ekki verði skylt að auglýsa lausar sendiherrastöður. Ef þessi breyting hefði ekki verið gerð hefðu þær verið auglýstar eins og aðrar stöður.