1997-05-17 00:09:32# 121. lþ. 129.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997 og 1998# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[24:09]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hlýt að fagna því ef það er áform ríkisstjórnarinnar að auka verulega framkvæmdir í vegamálum þegar á næsta ári. En hæstv. forsrh. talaði ekki skýrt í þeim efnum. Hann talaði um aukningu þegar fall yrði í framkvæmdum vegna stóriðjumála. Nú hef ég ekki alveg þá framkvæmdaröð í kollinum en mig minnir að það verði miklar framkvæmdir vegna þeirra, bæði iðjuvera og virkjana, alveg fram til ársins 1999 eða 2000. Ef ég ályktaði út frá því þá væri hæstv. forsrh. að segja að ríkisstjórnin ætlaði að gera átak í vegamálum árið 2000 eða 2001. Það er ekki það, herra forseti, sem þingmannabekkurinn í stjórnarliðinu var að segja við ráðherrabekkinn á Stöð 2 í gærkvöldi. Það var ekki það sem þeir voru að segja með því að afgreiða bara fjögurra ára áætlun til eins árs í reynd. Það sem þeir voru að segja, ef ég skil þeirra skilaboð rétt, er að þeir vilja auknar vegaframkvæmdir strax á næsta ári, 1998. Og ég spyr hæstv. forsrh.: Er hann og ríkisstjórnin sammála því eða er hann ósammála því? Flóknari er spurningin ekki.

Ég vil aðeins segja í lokin, herra forseti, varðandi þessar miklu framkvæmdir og þenslu sem eru á ákveðnum hluta landsins, að ég á mjög bágt með að sætta mig við og skilja að þörf sé á því á þessu ári að skera niður framkvæmdir í vegamálum á Vestfjörðum um 75 millj. kr. Ég sé ekki þessa þenslu þar, ég sé ekki þessar stóriðjuframkvæmdir þar, herra forseti.