1997-05-17 00:14:25# 121. lþ. 129.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997 og 1998# þál., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[24:14]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Kristinn Gunnarsson beindi til mín tveimur spurningum sem hann vildi fá svar við. Það var fyrst varðandi það hvort það hefði verið sérstök krafa frá Framsfl., ja, ég veit ekki, líklega við stjórnarmyndun eða einhvern tíma í upphafi stjórnarsamstarfsins, að skorið yrði sérstaklega niður í vegamálum. Samkomulag varð milli stjórnarflokkanna um að takast á við það verkefni að ná jafnvægi í ríkisfjármálum og það ætti hv. þm. og öllum hv. þm. að vera ljóst, að við höfum lagt mikið á okkur í því efni. Það hefur verið tekist á við alla þætti fjárfestingar í ríkisfjármálunum. Við höfum tekist á við að skera niður fjárfestingar til heilbrigðismála, fjárfestingar til skólamála og fjárfestingar til vegamála til þess að ná þessu markmiði. Þetta liggur fyrir. Um það var samkomulag og samstaða í ríkisstjórninni að þetta væri veigamikið verkefni sem yrði að takast á við þó að það kostaði fórnir.

Síðan spurði hv. þm. um þá vegáætlun sem við erum að ræða nú og afstöðu okkar til hennar sérstaklega. Ég vísa til þess sem kemur fram í greinargerð og nefndaráliti meiri hlutans sem hér liggur fyrir og er til umræðu og til þess samkomulags sem varð í meiri hluta samgn. og í ríkisstjórninni um hvernig staðið yrði að því máli og þess sem nú þegar hefur komið fram hjá hæstv. forsrh. þar sem hann gerir grein fyrir því samkomulagi og að utanrrh., formaður Framsfl., átti að sjálfsögðu þátt í því eins og hefur komið fram líka. Þar er markmiðið að viðhalda jafnvægi í efnahagsmálunum, stilla saman stærstu framkvæmdaflokkana og þess vegna varð samkomulag um að að þessu sinni yrði samþykkt vegáætlun til tveggja ára svo sem fram hefur komið og liggur hér fyrir.