1997-05-17 03:29:40# 121. lþ. 129.16 fundur 613. mál: #A aðgangur að sjúkraskrám o.fl.# frv., Frsm. ÖS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[27:29]

Frsm. (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. sem er að finna á þskj. 1189 og varðar breytingu lagaákvæða sem tengjast aðgangi að sjúkraskrám og tengdum efnum. Heilbr.- og trn. flytur þetta frv. Ég hef áður reifað það lítillega í tengslum við framsögu mína fyrir nál. um frv. til laga um réttindi sjúklinga fyrr á þessari nóttu. En í stuttu máli, herra forseti, varðar þetta breytingu á þremur lagabálkum.

Í fyrsta lagi er um að ræða breytingu á læknalögum, nr. 53/1988, samanber lög nr. 50/1990 og lög nr. 50/1996. Þar er lagt til að í stað þess lagaákvæðis sem nú er að finna í 16. gr. læknalaganna og fjallar um aðgang að sjúkraskrám þá er í staðinn vísað til ákvæða laga um réttindi sjúklinga.

Sama gildir um II. kafla þessa frv. Þar er gert ráð fyrir að lög um skráningar og meðferð persónuupplýsinga, nr. 121/1989, breytist með sama hætti. Það er að vísu gert ráð fyrir tveimur breytingum en meginbreytingin er sú að skylda læknis og þeirra sem færa sjúkraskrá til að afhenda sjúklingi eða þeim umboðsmanni sem hann tilnefnir afrit af skránni skuli fara eftir ákvæðum laga um réttindi sjúklinga.

III. kaflinn tengist breytingu á upplýsingalögum, nr. 50/1996. Þar er um að ræða samsvarandi breytingu. Þá er gert ráð fyrir að í upplýsingalögum fari með aðgang sjúklinga að sjúkraskrárupplýsingum eftir ákvæðum laga um réttindi sjúklinga.

Herra forseti. Það er ítarlegar fjallað um þetta í greinargerð en nefndin taldi nauðsynlegt að gera þessi lagaskil í samræmi við þær breytingar sem hún hefur lagt til að verði gerðar á 14. og 15. gr. frv. til laga um réttindi sjúklinga. Yfir þetta hefur verið vel farið og fjöldi sérfræðinga tilkvaddur, bæði lögfræðingur forsrn., formaður tölvunefndar og fleiri lögfræðingar, sem til voru kvaddir, lýstu nauðsyn þess að þær breytingar sem við leggjum fyrir yrðu gerðar.