Skýrsla Ríkisendurskoðunar um félagslega íbúðakerfið

Laugardaginn 17. maí 1997, kl. 13:53:31 (6874)

1997-05-17 13:53:31# 121. lþ. 131.95 fundur 342#B skýrsla Ríkisendurskoðunar um félagslega íbúðakerfið# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur

[13:53]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er grafalvarlegt mál ef þjóðin situr uppi með félagsmálaráðherra sem fer með húsnæðismál sem dreifir villandi upplýsingum um félagslegt íbúðarhúsnæði. Það er kannski of sterkt til orða tekið að tala um róg en þó er það þannig að það er afar erfitt að draga aðra ályktun af framgöngu hæstv. félmrh. en þá að hann hafi ætlað sér að koma óorði á félagslegt íbúðarhúsnæði. Það er afar erfitt. Munurinn er svo himinhrópandi á meðferð talna annars vegar í svörum hæstv. ráðherra og stórkarlalegum yfirlýsingum um ófremdarástand og kostnað í félagslegu íbúðarhúsnæði og niðurstöðu Ríkisendurskoðunar hins vegar að það er eiginlega ekki hægt að fá annan botn í það mál en það að fyrir hæstv. ráðherra hafi vakað pólitískur tilgangur. Sá pólitíski tilgangur getur þá tæplega verið annar en að koma óorði á félagslega húsnæðiskerfið.

Nú er það vissulega svo að ýmislegt í því kerfi getur þarfnast og þarfnast endurskoðunar og þar á meðal og kannski ekki síst skuldbindingar sveitarfélaga vegna endurkaupaskyldu og sérstaklega fjárhagslega veikra sveitarfélaga á landsbyggðinni. En menn mega aldrei gleyma hinu í umræðum um þessi mál að þúsundir láglaunafjölskyldna í landinu búa í tryggu íbúðarhúsnæði vegna þessa kerfis en gerðu það ekki ella. Það skiptir mestu máli að menn rægi ekki kerfið þannig niður og rýri það pólitískum stuðningi að það verði síðan handavinna einhverra illra afla að ganga að því dauðu. Og ætlar hæstv. félmrh. Páll Pétursson að vera fótgönguliði í þeim leiðangri, að grafa þannig undan félagslega húsnæðiskerfinu að þeim öflum í landinu, sem hafa lengi viljað það feigt, verði loksins að ósk sinni.