Skýrsla Ríkisendurskoðunar um félagslega íbúðakerfið

Laugardaginn 17. maí 1997, kl. 14:05:43 (6881)

1997-05-17 14:05:43# 121. lþ. 131.95 fundur 342#B skýrsla Ríkisendurskoðunar um félagslega íbúðakerfið# (umræður utan dagskrár), Flm. JóhS
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur

[14:05]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Hæstv. félmrh. stendur við hvert orð sem hann hefur sagt og segir að skýrsla Ríkisendurskoðunar hreki í engu það sem hann hafi sagt í þessu efni. Samt segist hann ekki hafa kynnt sér efni skýrslunnar. Það er alveg ljóst að hæstv. ráðherra gengur erinda þeirra sem vilja kerfið feigt og auðvitað er hann að fela hve lítil ríkisframlög hann lætur í félagslega kerfið. Staðreynd málsins er sú að Húsnæðisstofnun og Ríkisendurskoðun ber saman um að svör ráðherra hafi nánast verið fölsuð. Það séu villandi upplýsingar sem hann hefur gefið þinginu. Hæstv. ráðherra vildi taka á þessu máli árið 1992 í lögum um ráðherraábyrgð og þá sagði hæstv. ráðherra:

,,Ráðherrar geta freistast til að gefa Alþingi rangar eða villandi upplýsingar eða leyna það mikilvægum upplýsingum. Það getur leitt til óvandaðrar meðferðar mála og orsakað fullkominn trúnaðarbrest Alþingis og ráðherra.``

Einmitt það er að gerast núna. Það er fullkominn trúnaðarbrestur nú þegar ráðherra er uppvís að því að veita Alþingi röng svör við fyrirspurn.

Það er alveg ljóst að þetta mál er ekki búið. Auðvitað þarf að athuga eins og ég sagði hvort það komi til álita að skoða lög um ráðherraábyrgð eins og ráðherran sjálfur, þá þingmaður, vildi gera á sínum tíma.

Við erum ekki að tala um það hér hvort breyta eigi félagslega kerfinu sem ráðherrann eyddi öllum sínum tíma í en ekki í að svara því sem um var spurt. Það kemur einmitt fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem ég hvet ráðherrann til að lesa, að það virðist varla vera gæfuspor sem hann er að stíga með að breyta félagslega kerfinu og koma upp félagslegu íbúðalánakerfi ef marka má þau orð sem þar eru sögð.

En ég ítreka, virðulegi forseti, að þessu máli getur ekki verið lokið. Alþingi getur ekki látið bjóða sér upp á svör ráðherra sem eru svo óforskömmuð að það er sama hvort fyrir liggur skýrsla Húsnæðisstofnunar eða skýrsla Ríkisendurskoðunar en þeim ber saman í öllum aðalatriðum, ráðherrann ber hausnum við steininn og segir að hvert orð sem hann segi sé satt. Það er trúnaðarbrestur milli ráðherra og þingsins að því er þetta varðar. Það hefur komið fram hjá fulltrúum stjórnarandstöðunnar sem hér hafa talað.

Herra forseti. Þessu máli er ekki lokið.