Afstaða íslenskra stjórnvalda til Helms-Burton laga

Mánudaginn 07. október 1996, kl. 15:16:03 (40)

1996-10-07 15:16:03# 121. lþ. 3.1 fundur 29#B afstaða íslenskra stjórnvalda til Helms-Burton laga# (óundirbúin fsp.), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[15:16]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Á síðasta allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna greiddi Ísland atkvæði með þeim ríkjum sem vildu afnema viðskiptabann á Kúbu. Áður hafði Ísland venjulega setið hjá við þessa atkvæðagreiðslu og við höfum því ekki stutt sjónarmið Bandaríkjamanna í þessu sambandi. Við höfum haft miklar efasemdir um stefnu Bandaríkjanna í sambandi við málefni Kúbu en það má hins vegar segja að þessi lög hafi ekki beinlínis snert samskipti okkar við Kúbu vegna þess að þau eru afar lítil. Þetta mál hefur því ekki komið upp eins og það hefur gert gagnvart öðrum ríkjum. En almennt get ég sagt að ég tel þessa afstöðu Bandaríkjamanna óskynsamlega. Það er nauðsynlegt að breyta um stefnu gagnvart Kúbu jafnframt því sem það verður að hjálpa lýðræðisþróuninni þar á sama hátt og þarf að gera í Austur-Evrópu. Ég er þeirrar skoðunar að viðskiptabann gagnvart Kúbu muni ekki leysa þau samskiptamál og sé í þessu tilviki orðið úrelt baráttutæki.