Stefnumörkun í ferðaþjónustu

Mánudaginn 07. október 1996, kl. 15:37:36 (56)

1996-10-07 15:37:36# 121. lþ. 3.1 fundur 34#B stefnumörkun í ferðaþjónustu# (óundirbúin fsp.), USt
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[15:37]

Unnur Stefánsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég er með fyrirspurn til hæstv. samgrh. sem er á þessa leið: Hvað líður stefnumörkun í ferðaþjónustu og hvenær hyggst ráðherra leggja fram á Alþingi þingsályktun eða frumvarp um stefnumörkun í ferðaþjónustu?

Árið 1987 lagði sú sem hér stendur fram þáltill. á Alþingi um stefnumörkun í ferðaþjónustu sem er næststærsta atvinnugreinin hér á landi. Þáv. samgrh., Steingrímur J. Sigfússon, kom málinu áfram og setti af stað vinnuhóp sem starfaði í eitt og hálft ár og síðan lagði hann fram þáltill. á Alþingi um stefnumörkun í ferðaþjónustu. Fjallað var um tillöguna en hún fékk ekki framgang og við þinglok 1991 hafði ekki tekist að ljúka málinu. Síðan eru liðin fimm ár og því spyr ég hæstv. samgrh. hvað málinu líður. Alls eru því níu ár, ekki níu mánuðir, sem tillagan hefur verið í meðgöngu og ég spyr því ráðherra aftur: Hyggst ráðherra leggja fram ályktun eða frv. um þetta mál á Alþingi nú?