Lífskjör og undirbúningur kjarasamninga

Mánudaginn 07. október 1996, kl. 17:24:40 (78)

1996-10-07 17:24:40# 121. lþ. 3.95 fundur 26#B lífskjör og undirbúningur kjarasamninga# (umræður utan dagskrár), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[17:24]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég held að menn þurfi í sjálfu sér ekkert að hrista af sér sjálfsánægju. Það er vitað mál að það er ýmislegt að í samfélagi okkar en við megum samt ekki láta svartsýnina ná algerlega tökum á okkur. Það er nú svo undarlegt að í nýrri könnun sem birtist í gær í Morgunblaðinu kemur í ljós að lífeyrisþegar, konur og verkafólk, eru ánægðastir af þeim hópum sem eru í samfélagi okkar. Ég verð að segja það eins og er að það kemur mér nokkuð á óvart. Það er ekki í neinu samræmi við þá umræðu sem fer hér fram og ég hafði ekki gert mér grein fyrir því að þessir hópar þjóðfélagsþegna eru hvað ánægðastir í landi okkar eða miklu óánægðari með kjör sín í öllum öðrum löndum. Auðvitað metur fólkið lífið og tilveruna ekki eingöngu út frá efnislegum kjörum. En mér finnst að þetta sé í algjöru ósamræmi við þá umræðu sem fer fram á Alþingi því að umræðan í Alþingi segir að konur séu óánægðari í landi okkar en alls staðar annars staðar. Það kemur fram í þessari könnun að það sé í Frakklandi þannig að mér finnst rétt að menn tali um þetta eins og það er.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði að hann vildi hækka skatta. En af hverju hefur Alþb. ekki flutt frv. um það að hækka skattana vegna þess að þeir hafa sagt að þeir hafi lagt fram þau þingmál sem þeir ætla að berjast mest fyrir? Hvað hafa þeir lagt fram hér? Þeir hafa lagt fram frv. um lækkun skatta, þ.e. lækkun jaðarskatta. (ÖJ: Ég gagnrýndi ykkar skatta.) Hvað höfum við gert? Við höfum lagt skatt á fjármagnstekjur í andstöðu við hv. þm. en sem betur fer í góðu samstarfi við megnið af verkalýðshreyfingunni. Hann vildi ekki leggja skatt á fjármagnstekjur og barðist mjög gegn því. (Gripið fram í.) Þú hefur möguleika á að tala hátt úr ræðustól á eftir, hv. þm. Við höfum líka sagt að það þurfi að endurskoða þau skatthlunnindi sem hlutabréfaeigendur hafa í dag til þess að skapa m.a. svigrúm til þess að framkvæma einhverja svipaða skattalækkun og Alþb. er að leggja til. Það verður að vera eitthvert samræmi í málflutningnum, hv. þm., og ég hef ekki séð neina tillögu um það frá Alþb. að hækka skatta á fyrirtækjum eða hækka skatta á hærri tekjum. Þvert á móti er Alþb. að leggja til að lækka skatta á þeim sem hafa hærri tekjur eða þeim tengingum sem eru þar, ég er sammála því. En það er ekki nóg að vera á móti öllum stefnum hv. þm., það er ekki nóg að vera á móti öllum stefnum. (Gripið fram í.) Menn verða að hafa einhverja stefnu sjálfir.

(Forseti (StB): Forseti vill biðja hv. þm. að gefa hv. ræðumönnum og hæstv. ráðherrum möguleika á að ljúka máli sínu.)