Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 14:29:16 (91)

1996-10-08 14:29:16# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[14:29]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar vitnað var til Svíþjóðar var það gert vegna þess að verið var að benda á nauðsyn þess að við borguðum velferðarkerfið með fjármunum sem við höfum tiltæka í dag en tækjum þá ekki að láni. Það eiga þessar þjóðir sammerkt að hafa þurft á undanförnum árum að reka ríkissjóð með halla sem þýðir að m.a. velferðarkerfið er rekið fyrir lánsfé. Slíkt gengur ekki upp.

Þá spurði hv. þm. hvort það væri virkilega meiningin að geyma svokölluð viðbótarlaun þar til eftir kjarasamninga. Hugmynd mín er sú að það eigi að gera. Ég tel að það sé skynsamlegt.

[14:30]

Ég ítreka það sem ég hef sagt fyrr í ræðunni og sagði í fyrra að ég tel einnig eðlilegt að um þessi mál verði haft samráð við forustumenn starfsmanna ríkisins. Ég ítreka það hér og nú og það sé meira virði að gera það heldur en að flýta þessu ákvæði, enda minni ég hv. þm. á að hann og margir aðrir þingmenn voru mikið á móti þessu ákvæði þannig að ég trúi því ekki að hv. þm. sé að koma hingað upp og biðja mig um að flýta því sem hann var mest á móti.

Í þriðja lagi er það rétt að við sjálfstæðismenn höfum og reyndar ríkisstjórnin öll stutt þjóðarsátt. Meira að segja þegar Sjálfstfl. var í stjórnarandstöðu í upphafi árs 1990 tók hann ábyrgt á málum og sagði: ,,Við styðjum þjóðarsátt. Við styðjum sátt milli launþega, vinnuveitenda og ríkisins til að ná verðbólgunni niður.`` Það gerðum við í stjórnarandstöðu og þetta gerðu flestir. Það var hins vegar áberandi hverjir sátu eftir. Einn þeirra var hv. þm. Ögmundur Jónasson og samtök hans, BSRB.