Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 14:31:17 (92)

1996-10-08 14:31:17# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[14:31]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hæstv. fjmrh. þurfi að skýra nánar hvað hann á við. Hvenær var það sem BSRB og sá sem hér stendur stóðu eftir þegar boðað var til eða reynt að stuðla að þjóðarsátt í landinu? Ég vil minna hæstv. ráðherra á að ríkisstjórnin hefur meinað stórum hluta launamarkaðarins að koma að tillögusmíð þegar öðrum samtökum eða hluta vinnumarkaðarins hefur verið opnuð slík leið. Ég vil t.d. benda á í því efni varðandi fjármagnstekjuskattinn að þar áttu fulltrúar opinberra starfsmanna enga fulltrúa og komu þar hvergi að máli þannig að ég held að hæstv. ráðherra þurfi að skýra nánar hvað hann á við.

En varðandi viðbótarlaunin, þá er það rétt að ég var andvígur þeim og á meðal annarra margra þingmanna andvígur þessu ákvæði laganna, en ég tel mjög mikilvægt að frá þessum málum verði gengið hið allra fyrsta. Ítrekað höfum við í sumar, fulltrúar launafólks, farið fram á það við ríkisstjórnina, farið fram á það við fjmrh. að hann geri grein fyrir því hvaða hugmyndir hann hefur í þessum efnum. Ef hann er tilbúinn að semja um þessi efni þá er nauðsynlegt að upplýsingar þar að lútandi komi fram hér og nú.