Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 15:48:52 (110)

1996-10-08 15:48:52# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[15:48]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er nokkuð víst, og ég get eiginlega fullyrt það, að ekki eru allir sammála hæstv. fjmrh. í því að samflot sé besta leiðin fyrir láglaunafólk. Ég dreg einfaldlega þá ályktun af þeim kröfum sem fulltrúar láglaunafólks, láglaunahópanna, hafa lagt fram á undanförnum vikum. Þvert á móti hafa einmitt láglaunahóparnir frekar ýtt á að draga sig út úr samflotinu vegna þess að þeir vilja meina að það hafi ekki skilað láglaunafólkinu. En það væri hægt að hafa langar umræður um þetta eitt og sér.

Varðandi bótaþegana sagði hæstv. fjmrh. að þeir væru núllstilltir miðað við verðbólgu þannig að kaupmáttaraukningin væri í raun og veru óbreytt. Það staðfestir það sem ég hélt að skerðingin er 1,5% miðað við það sem áætlað er að almenn launaþróun verði. (Gripið fram í.) Það er ekki hægt að fá annað út úr þessu reikningsdæmi, hæstv. fjmrh., en að hér sé um að ræða skerðingu upp á 1,5% sem verður síðan meiri ef launin hækka um meira en 3,5% að meðaltali, þannig að þarna sé um að ræða alla vega 1,5% af skerðingu fyrir bótaþegana.