Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 17:12:27 (120)

1996-10-08 17:12:27# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[17:12]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. 13. þm. Reykv. nefndi nokkur atriði og taldi mig ekki hafa mikið um þau að segja. Ég tók það fram í upphafi ræðu minnar að ég mundi hafa almenn orð um þetta frv. nú en mundi koma að málum nánar við 2. umr. Ég get eigi að síður sagt nokkuð um þau atriði sem hún nefndi. Ég tel að það sé alveg víðs fjarri að verið sé að eyðileggja Framkvæmdasjóð fatlaðra. Það er verið að setja hluta af framlögum til hans í rekstur og allt framlagið sem er reiknað til hans í fjárlögunum fer í framkvæmdir en hinu er deilt út á verkefni sem stjórn framkvæmdasjóðsins útlhlutaði til áður. Það er því alveg víðs fjarri að svo sé. Það er ekki reiknað með því að taka upp þjónustugjöld í heilbrigðiskerfinu og varðandi sjúkrahúsin, m.a. hér í Reykjavík, þá er nýlega búið að ganga frá samningi um aðgerðir þar á milli fjmrn., heilbrrn. og Reykjavíkurborgar. Það er reiknað með því að sjúkrahúsin í Reykjavík fái um 400 milljónir á aukafjárlögum. Það er reiknað með því að vinna áfram að þessum málum á næsta ári þannig að það er víðs fjarri að fullyrðingar hv. þm. um að mínir flokksmenn og ég þar á meðal séu ekki að hugsa um fólk í þessu fjárlagafrv. Við erum að reyna að stýra málum á þann veg að þetta kerfi verði ekki brotið niður í framtíðinni með skuldasöfnun og vaxtagreiðslum. Hv. þm. kannast við öll þessi mál síðan hann var ráðherra þannig að þetta er ekkert ný barátta.