Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 19:24:30 (133)

1996-10-08 19:24:30# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[19:24]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að þetta hafi verið mjög merkileg skilaboð sem var verið að læða út til okkar að um þetta væri upplagt að semja. Auðvitað er það ein ágæt aðferð sem oft hefur verið notuð til þess að ná fram réttlætismálum að verkalýðshreyfingin hefur sett kröfur um slíkt á oddinn og ekki skal standa á mér að leggja í það vinnu ásamt með öðrum sem kæmi þá til kasta Alþingis að lögfesta slíkt (Gripið fram í: Hvað með fjármagnstekjuskattinn?) og breyta fjármagnstekjuskattinum í leiðinni. Ég tel að þetta mál liggi einfaldlega svo ljóst fyrir að skyldi nú fara svo að þetta yrði ekki kröfugerð og ekki umsamið eða laust við það borð beri Alþingi að taka á því og okkur sé ekkert að vanbúnaði að gera það.

Ég vil gjarnan mega taka hæstv. fjmrh. á orðinu og taka undir með honum. Það er að sjálfsögðu rétt að þó að fjárlög séu afgreidd með tilteknum tekjuforsendum breytir það ekki því að Alþingi hefur löggjafarvaldið og getur gripið inn í og breytt álagningu tekjuskatts eða útreikningi eða greiðslum bóta og slíkt er hægt að gera hvort sem er við áramót eða jafnvel síðar. Náist ekki önnur betri niðurstaða fyrir þessi áramót skora ég á hæstv. fjmrh. að láta skoða það að setja einhverjar skorður á jaðaráhrifin með eftiráuppgjöri til bráðabirgða á meðan önnur og varanlegri lausn er útfærð. Það er auðveld og einföld leið tæknilega og mönnum er þar a.m.k. ekkert að vanbúnaði.

Ég tek svo undir það með hæstv. fjmrh. að það eru hlutir sem varða skattlagningu fyrirtækjanna sem þarf auðvitað að skoða. Það getur ekki verið svo að við teljum það eðlilega þróun að skattgreiðslur fyrirtækjanna lækki í bullandi góðæri eins og nú er að gerast, að tekjuskattsgreiðslur fyrirtækja séu lækkandi núna við þessar aðstæður, að vísu að einhverju leyti af tímabundnum ástæðum vegna flýtifyrninga en ég held að reglurnar um töpin séu kannski stærri orsakavaldur, gömul töp sem fyrirtækin geta geymt sér í fimm ár og búa sér jafnvel til hagnað, búa til hagnað með ýmsum aðferðum sem ég ætla ekki að fara út í að ræða hér til þess að nýta töpin og fá svo afskriftir á móti á komandi árum. Þetta er ómögulegt kerfi, hæstv. fjmrh., og við verðum að breyta því.